Tuttugu og einn titill í hús

Leikmenn SA fagna 21. Íslandsmeistaratitli félagsins.
Leikmenn SA fagna 21. Íslandsmeistaratitli félagsins. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þriðja leikn­um í úr­slita­ein­víg­inu um Íslands­meist­ara­titil­inn í ís­hokkí karla lauk í dag á Ak­ur­eyri þar sem SA og SR átt­ust við en leikn­um lauk með 4:1-sigri SA. SR-ing­ar urðu að vinna leik­inn til að fram­lengja ein­vígi liðanna um Íslands­meist­ara­titil­inn en staðan var 2:0 í unn­um leikj­um þegar flautað var til leiks í dag.

Heima­menn voru ekk­ert á þeim bux­un­um að hleypa SR-ing­um að borðinu og þeir unnu góðan sig­ur. SA var að landa sín­um tutt­ug­asta titli á 28 árum. Ak­ur­eyr­ing­ar eru vel að titl­in­um komn­ir en þeir unnu SR tíu sinn­um í ell­efu leikj­um liðanna í deild­ar- og úr­slita­keppn­inni í vet­ur. Allt var með kyrr­um kjör­um fram­an af fyrsta leik­hlut­an­um og það voru SR-ing­ar sem voru kraft­meiri og þeir sköpuðu sér nokk­ur færi.

Var þetta lognið á und­an storm­in­um því á loka­mín­út­um leik­hlut­ans rigndi mörk­um. SA komst í 2:0 með mörk­um skoruðum með inn­an við mín­útu milli­bili. Fyrrra markið skoraði Jor­d­an Ste­ger með sak­leys­is­legu skoti en seinna markið var þruma upp í skeyt­in frá Thom­as Stu­art-Dant. SR-ing­ar blésu strax í her­lúðra og sóttu án af­láts þar til pökk­ur­inn lá í neti SA-marks­ins. Aron Knúts­son átti gott skot sem virt­ist á leið í stöng­ina eða fram hjá marki SA. Adam Beu­ke­boom ákvað þó að grípa pökk­inn en það vildi ekki bet­ur til en svo að hann mis­reiknaði sig og pökk­ur­inn lak í gegn­um hanska Adams og inn í markið.

Staðan var 2:1 eft­ir fyrsta leik­hlut­ann og hún breytt­ist ekki lengi vel. SR komst í yf­ir­tölu um miðjan ann­an leik­hlut­ann og dundu þá skot­in á marki heima­manna. Allt kom fyr­ir ekki og áfram var bar­ist. Mark frá Jussi Sippon­en kom SA í 3:1 og þá hrökk allt í baklás hjá Reyk­vík­ing­um. Heima­menn héldu þeim í helj­ar­greiðum og eft­ir mikla orra­hríð, þar sem Atli Snær Valdi­mars­son varði eins og ber­serk­ur, náði Andri Már Mika­els­son að skora fjórða markið. Í kjöl­farið voru SR-ing­ar send­ir í refsi­boxið í bunk­um og SA sótti áfram.

Staðan var 4:1 þegar loka­leik­hlut­inn hófst og Ak­ur­eyr­ing­ar með öll tromp á hendi. Í byrj­un hans voru gest­irn­ir nefni­leg­ar tveim­ur færri og út­litið því svart hjá þeim. SR-ing­ar voru langt frá því að vera hætt­ir og þeir stóðu af sér refs­ing­arn­ar og héldu ótrauðir áfram. Þeim gekk ekk­ert að skora þótt þeir væru tvisvar í yf­ir­tölu og smám sam­an þvarr þrótt­ur SR-inga. Mi­loslav Racan­sky fékk þó víti fyr­ir SR þegar skammt var eft­ir en hann nýtti það ekki. Á loka­mín­út­un­um sótti SR loks af mikl­um móð en allt kom fyr­ir ekki. SA vann því 4:1. Tit­ill­inn er því Ak­ur­eyr­inga í 20. skiptið.

SA 4:1 SR opna loka
Mark Jordan Steger (16. mín.)
Mark Thomas Stuart-Dant (16. mín.)
Mark Jussi Sipponen (31. mín.)
Mark Andri Már Mikaelsson (36. mín.)
Mörk
Mark Aron Knútsson (18. mín.)
mín.
60 Leik lokið
Akureyringar vinna leikinn og Íslandsmótinu í íshokkí er þar með lokið. Íslandsmeistaratitillinn fer á loft eftir skamma stund.
57 Felix Dahlstet (SR) Víti fer forgörðum
Ætli leikurinn hafi ekki farið endanlega þarna. Milos kemst upp að markinu en Adam ver vítið.
57
Milos brunar upp völlinn en Orri verst vel. Hann fær þó dæmt á sig víti.
57
Jóhann Leifsson er straujaður og er studdur útaf vellinum. Það eru nú fjórar mínútur eftir og SA virðist ætla að landa titli í dag.
51
Heimamenn sleppa með skrekkinn og nú er aftur jafnt í liðum. Það eru tíu mínútur eftir.
50
Petr Kubos dælir skotum á mark SA. Pökkurinn fer ekki inn.
49 Jóhann Leifsson (SA) 2 mín. brottvísun
Heimamenn eru að bjóða hættunni heim með því að koma sér í refsiboxið.
48
Tíminn tifar og SR þarf að skora sem fyrst.
44 Thomas Stuart-Dant (SA) 2 mín. brottvísun
Gestirnir geta nú komið sér inn i leikinn.
43
Nú er jafnt í liðunum á ný. SA hefði nánast klárað leikinn með marki þegar þeir voru tveimur og einum manni fleiri.
42
SR-ingar halda út í mínútu tveimur mönnum færri. Þeir bruna svo upp völlinn og skora næstum. Það hefði verið frábær vítamínssprauta fyrir þá að fá mark
41 Þriðji leikhluti hafinn
40 Öðrum leikhluta lokið
SA er sem stendur í algjörri kjörstöðu. Gestirnir í SR hafa 20 mínútur til að rétta sinn hlut og framlengja einvígið um titilinn.
40 Kári Guðlaugsson (SR) 2 mín. brottvísun
þetta er slæmt fyrir SR. Dómararnir eru reglulega harðir.
39 Felix Dahlstet (SR) 2 mín. brottvísun
Reykvíkingar eru ekki að gera sér auðvelt fyrir með brottrekstrum.
37 Jóhann Ragnarsson (SR) 2 mín. brottvísun
Þetta virtist ekki mikið. Orri féll og Egill fær refsingu.
36 MARK! Andri Már Mikaelsson (SA) Mark
4:1. Andri Már er búinn að vaða í færum síðustu mínútur og nú tókst honum aðsenda pökkinn í netið.
35
Vá. Atli Snær er að bjarga SR-ingum trekk í trekk með góðri markvörslu.
32 Robbie Sigurðsson (SR) 2 mín. brottvísun
Eitthvað er að hitna í mönnum og Robbie fer í refsiboxið fyrir að hafa ráðist á Orra Blöndal. Orri er eflaust ekki saklaus í þeim viðskiptum.
31 MARK! Jussi Sipponen (SA) Mark
3:1. Stórkostlegt spil hjá SA endar með að Jussi fær pökkinn framan við markið. Hann er ekkert að flýta sér og bíður lengi áður en hann sendir boltann upp í þaknetið. Pökkurinn virtist hafa hrokkið af markslánni en Andri Már fylgdi eftir og skoraði aftur.
29
Nú er búi að vera hlé á leiknum þar sem mark SR-inga gekk úr skorðum.
28
Heimamenn standa af sér orrahríðina og í kjölfarið á Jussi magnaðan sólókafla sem fær áhorfendur til að súpa hveljur. Jussi reynir svo töfrasendingu á Jordan en hún heppnast ekki. Jordan hefði verið í dauðafæri ef hann hefði fengið pökkinn.
26
SR í stórsókn og skotin dynja á marki SA.
26 Hafþór Sigrúnarson (SA) 2 mín. brottvísun
Mikil læti í Hafþóri upp við rammann og hann er sendur í kælingu.
24
Heimamenn í SA hafa verið mjög ákafir í upphafi leikhlutamns. SR-ingar eiga í vök að verjast.
21 Annar leikhluti hafinn
20 Fyrsta leikhluta lokið
Hnífjafn og spennandi leikur eins og við var búist.
18 MARK! Aron Knútsson (SR) Mark
2:1. Þrumuskot sem virðist stefna framhjá fer í hanska Adams og dettur inn. SR-ingar voru búnir að vinna fyrir þessu marki.
17
Tvö mörk á sömu mínútunni er áfall fyrir SR. Gestirnir sækja nú af krafti.
16 MARK! Thomas Stuart-Dant (SA) Mark
2:0. Thomas þrumar pökknum upp í samskeytin.
16 MARK! Jordan Steger (SA) Mark
1:0. Jordan leikur með pökkinn framan við mark SR og nær lúmsku bakhandarskoti. Pökkurinn virðist fara á milli fóta Atla í markinu.
15
SA nær nokkrum skotum í yfirtölunni.
14 Styrmir Friðriksson (SR) 2 mín. brottvísun
Klafs og fella hjá Styrmi.
13
Nú sækja liðin á víxl. Leikurinn er að opnast og hraðinn eykst.
10
Robbie fær góða sendingu inn að markinu frá Agli en hann hittir ekki pökkinn. SR-ingar eru öllu líklegri sem stendur.
7
SR-ingar sýna þolinmæði og spila sig í gott færi. Adam ver skotið frá Agli Þormóðssyni.
6 Orri Blöndal (SA) 2 mín. brottvísun
Mjög góð tækling frá Orra en hann er dæmdur brotlegur. Þarna var Milos að komast í gott færi.
5
SA tókst að leysa vandræði sín vel og SR náði engri pressu á mark þeirra.
3 Rúnar Rúnarsson (SA) 2 mín. brottvísun
Fyrsti dómjur dagsins. það er Lurkurinn sem fær að setjast í refsiboxið.
1
SR-ingar eiga fyrsta skotið.
0
Atli Snær Valdimarsson byrjar í markinu hjá SR.
0 Leikur hafinn
0
Nokkrir stuðningsmenn SR eru komnir norður og ætla eflaust að láta vel í sér heyra.
0
Liðin eru nú kynnt til leiks. Mér segir svo hugur að bardaginn í dag verði blóðugur.
0
Fyrstu tveir leikirnir í þessu einvígi hafa verið mjög jafnir og spennandi. SA vann þá báða 3:2, fyrri leikinn í framlengingu.
0
Um þriðja leik einvígisins er að ræða og er SA búið að vinna fyrstu tvo og nægir sigur í dag til að verða Íslandsmeistari.
0
Góðan dag og verið velkomin með mbl.is í beina textalýsingu frá leik SA og SR í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkíi.
Sjá meira
Sjá allt

Lýsandi: Einar Sigtryggsson
Völlur: Skautahöll Akureyrar

Leikur hefst
16. mars 2019 16:30

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka