Þorbergur sautjándi í 115 kílómetra hlaupi

Þorbergur Ingi í Esjuhlaupi.
Þorbergur Ingi í Esjuhlaupi. Ljósmynd/Þórarinn Sigurbergsson

Hlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson kom í mark eftir 115 kílómetra utanvegahlaup á portúgölsku eyjunni Madeira rétt fyrir klukkan þrjú að íslenskum tíma. Hann hljóp á fimmtán klukkustundum, 56 mínútum og 26 sekúndum. Þorbergur var sautjándi í mark en 947 menn voru skráðir í karlaflokk. Þar af kláruðu 640 hlaupið.

Hlaupið, MIUT Madeira Island Ultra Trail, hófst á miðnætti að staðartíma eða klukkan ellefu í gærkvöldi að íslenskum tíma. Þorbergur er einn fremsti utanvegahlaupari Íslands. Hæðaraukningin í hlaupinu er 7500 metrar og margir af sterkustu utanvegahlaupurum heims tóku þátt.

Hörð barátta

Franski utanvegahlauparinn Francois Dhaene sigraði hlaupið en hann hljóp á þrettán klukkustundum, 49 mínútum og 36 sekúndum. Á eftir honum kom Svisslendingurinn Diego Pazos sem hljóp á fjórtán klukkustundum, þrettán mínútum og 59 sekúndum. Þriðja sætið hreppti bandaríski hlauparinn Tim Tollefson en hann var rúmum 22 mínútum á eftir Pazos.

Hörð barátta var í kringum Þorberg en Spánverjinn Adur Mendizabal-Luluaga var rúmum tveimur mínútum á undan Þorbergi í mark. Þá komu Frakkarnir Martin Kern og Nicolas Riviere báðir fast á hæla Þorbergs og voru einungis um einni og hálfri mínútu á eftir honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert