Stórmót í crossfit hefst við Esjurætur

Þuríður Erla Helgadóttir verður á ferðinni í Laugardalshöll um helgina.
Þuríður Erla Helgadóttir verður á ferðinni í Laugardalshöll um helgina.

Íslendingar hafa sett sterkan svip á rúmlega áratugs sögu crossfit en um helgina verður í fyrsta sinn keppt á alþjóðlegu stórmóti í greininni hér á landi. Mótið hefst með hlaupi upp á Esju í hádeginu á föstudag.

Alls munu um 120 keppendur frá 17 löndum taka þátt í mótinu, sem ber heitið Reykjavík Crossfit Championship, en sigurvegararnir tryggja sér þátttökurétt á heimsleikunum sem fram fara um verslunarmannahelgina í sumar. Á meðal þeirra sem hlaupa upp á Esjutind og keppa svo í Laugardalshöll fram á sunnudag eru Björgvin Karl Guðmundsson, Roman Khrennikov, Lukas Esslinger, Tim Paulson, Þuríður Erla Helgadóttir, Haley Adams og Samantha Briggs svo einhver séu nefnd.

„Ísland er á ákveðinn hátt hið fyrirheitna land crossfit íþróttarinnar. Annie Mist ruddi brautina árið fyrir tíu árum síðan og í kjölfar hennar hafa fylgt fjölmargir íslenskir keppendur á heimsmælikvarða. Íslendingar hafa fjórum sinnum unnið Heimsleikana og þrettán sinum verið á verðlaunapalli. Það eru ótrúlegar tölur miðað við okkar ástkæru höfðatölu. Staðan er einfaldlega sú að það er næstum hægt að ganga að því vísu að það verði íslendingur á verðlaunapalli ef það er á annað borð verið að keppa í crossfit einhversstaðar. Því er sérlega ánægjulegt að geta loksins haldið stórmót hér á landi,“ segir Hjörtur Grétarsson framkvæmdastjóri keppninnar, í fréttatilkynningu.

Annie vill ekki vera beggja megin borðsins

Annie Mist Þórisdóttir, sigurvegari heimsleikanna 2011 og 2012, er ein af skipuleggjendum mótsins í Reykjavík: 

„Að hér á Íslandi fari fram keppni sem tryggi þáttökurétt á heimsleikunum og dragi til sín besta íþróttafólkið er eitthvað sem mig hefur dreymt um í mörg ár. Það er í keppni gegn þeim bestu sem maður kemst almennilega að því hvar maður stendur og hvað það er sem maður þarf að leggja áherslu á til að verða betri. Það er því ofboðslega gaman að sjá að nær allt efnilegasta íslenska crossfitfólkið hafi náð að tryggja sér þátttöku og sé að fara að vera með á mótinu,“ segir Annie, sem mun hins vegar ekki taka þátt sjálf.

Björgvin Karl Guðmundsson er þaulvanur stórmótum en keppir nú í …
Björgvin Karl Guðmundsson er þaulvanur stórmótum en keppir nú í fyrsta sinn á slíku á Íslandi.

„Mig langar svo mikið að vera með og það er búið að vera að magnast undangengna daga. Það mun bara líta svo illa út af því að ég er beggja megin borðsins. Hinsvegar er eiginlega alveg öruggt að ég dragi mig út úr framkvæmdinni á næsta ári og verði á meðal keppenda. Það á eftir að vera alveg einstakt fyrir íslensku keppendurna að keppa í troðfullri Laugardalshöll fyrir framan fólkið sitt og mig langar að upplifa það,“ segir Annie og bætir við:

„Ég fæ samt smá að vera með því á laugardeginum er á dagskránni sér atriði sem heitir DÓTTIR. Ég og Katrín Tanja erum að fara að gera dálítið skemmtilegt þar en ég vil ekki segja meira um það alveg strax.“

Miðasala fór gríðarlega vel af stað þegar hún hófst um miðjan janúar og seldust öll sæti í stúkum upp skömmu síðar. Miðar í stæði eru enn fáanlegir á tix.is. Búist er við um 1.200 erlendum gestum hvaðanæva að og gert er ráð fyrir að á milli 3.000 og 4.000 gestir verði í Laugardalshöllinni yfir helgina.

Annie Mist og Katrín Tanja verða með atriði á laugardaginn …
Annie Mist og Katrín Tanja verða með atriði á laugardaginn sem leynd liggur yfir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert