74. íþróttaþing ÍSÍ verður haldið um næstu helgi. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins stendur til að leggja á þeim vettvangi fram tillögu sem snýr að nýjum þjóðarleikvangi fyrir innanhússíþróttagreinar.
Mikil samstaða virðist ríkja um tillöguna sjálfa í það minnsta því tólf sérsambönd leggja hana fram.
Þau eru: Blaksamband Íslands, Dansíþróttasamband Íslands, Fimleikasamband Íslands, Handknattleikssamband Íslands, Íþróttasamband fatlaðra, Júdósamband Íslands, Keilusamband Íslands, Körfuknattleikssamband Íslands, Landssamband hestamannafélaga, Siglingasamband Íslands, Skautasamband Íslands og Sundsamband Íslands.
Í tillögunni er fyrst og fremst skorað á ÍSÍ, regnhlífarsamtök íþróttahreyfingarinnar, að hefja tafarlaust viðræður við ríkisvaldið sem og borgaryfirvöld um varanlega lausn á aðstöðuleysi afreksíþróttafólks og landsliða Íslands. Farið er fram á að skipaður verði vinnuhópur fyrir 20. maí 2019, um nýjan þjóðarleikvang sem nýst geti sem flestum íþróttagreinum.
Í drögum að ályktuninni er fullyrt að skortur á aðstöðu sé farinn að hamla framþróun í afreksstarfi sérsambandanna.