Sundmaðurinn Anton Sveinn McKee er búinn að tryggja sér þátttökurétt á HM í Gwangju í Suður-Kóreu í lok júní í 100 metra bringusundi.
Anton hafnaði í fimmta sæti í undanúrslitum á TYR Pro Swim Series-mótinu í Blommington í Indiana í Bandaríkjunum í dag og tryggði sér sæti í úrslitum. Hann synti á 1:01,46 mínútu, sem er undir lágmarkinu fyrir HM.
Úrslitin í sundinu fara fram í kvöld. Anton er einnig á meðal þátttakenda í 50 og 200 metra bringusundi. Anton snúið sér nánast alfarið að bringusundi upp á síðkastið og stendur best að vígi í 200 metrunum.
Hann mun í lok mánaðarins keppa fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum sem haldnir verða í Svartfjallalandi. Anton Sveinn hefur verið við æfingar í Bandaríkjunum þar sem hann býr og starfar.