„Ég er afar sáttur við árangur helgarinnar. Það gekk allt upp eins og að var stefnt,“ sagði sundmaðurinn Anton Sveinn McKee í samtali við Morgunblaðið í gærmorgun þar sem hann var staddur á flugvellinum í Indianapolis á heimleið til Boston, eftir að hafa tryggt sér farseðilinn á heimsmeistaramótið í sundi í 50 m laug sem fram fer í Gwangju í Suður-Kóreu í lok júlí.
Anton Sveinn náði lágmarki til þátttöku í 50 og 100 m baksundi á HM með framúrskarandi árangri á TYR Pro Swim Series-sundmótinu í Bloomington í Indiana um helgina. Um leið setti hann Íslandsmet í 50 m bringusundi. Bætti hann 10 ára gamalt met Jakobs Jóhanns Sveinssonar um ríflega fjórðung úr sekúndu, synti á 27,73 sekúndum. Anton Sveinn var nærri eigin meti í 100 m bringusundi á mótinu um helgina en hann komst einnig í úrslit í 200 m bringusundi.
„Ég er afar sáttur við þennan árangur enda var ég alls ekki fullhvíldur fyrir átökin og tel mig þar af leiðandi eiga meira inni sem er jákvætt þegar litið er til þátttökunnar á HM í sumar,“ sagði Anton Sveinn sem verður í íslenska landsliðinu í sundi sem tekur þátt í Smáþjóðaleikunum sem fram fara í Svartfjallalandi í lok þessa mánaðar.
Sjá allt viðtalið við Anton á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag