FH-ingurinn Valdimar Hjalti Erlendsson sló piltamet sitt í kringlukasti þegar hann fagnaði sigri í flokki 19 ára og yngri á Vormóti ÍR á Laugardalsvelli í gærkvöld. Mótið fór þá fram í 77. sinn.
Valdimar Hjalti er einn af þeim átta efnilegu Íslendingum sem keppa munu á hinu sterka unglingamóti Bauhaus Junioren Gala í Mannheim í Þýskalandi um næstu helgi. Hann ætti að halda á mótið með byr í seglunum eftir gott gengi í júní en hann setti nýtt piltamet í kringlukasti (þar sem notast er við 1,75 kg kringlu) snemma mánaðar með 56,73 metra kasti. Í gærkvöld kastaði hann svo enn lengra eða 57,54 metra í sinni fjórðu tilraun.
Auk Valdimars fara til Mannheim Íslandsmethafarnir Elísabet Rut Rúnarsdóttir og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, og þau Erna Sóley Gunnarsdóttir, Birna Kristín Kristjánsdóttir, Hinrik Snær Steinsson, Tiana Ósk Whitworth og Þórdís Eva Steinsdóttir. Valdimar og Erna Sóley kepptu í Laugardalnum í gær og vann Erna Sóley ein af 16 gullverðlaunum ÍR-inga með því að kasta 14 metra slétta í kúluvarpi í sinni þriðju tilraun.
Af öðrum úrslitum má nefna að ólympíufarinn Guðni Valur Guðnason kastaði 56,53 metra í kringlukasti fullorðinna og vann það af öryggi, en það er þó níu metrum frá hans besta árangri sem hann náði í fyrra. Guðni Valur vann einnig kúluvarpið með 17,30 metra kasti.
Sjá alla greinina á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag