Anton Sveinn McKee setti tvö Íslandsmet í morgun þegar hann keppti fyrstur Íslendinga á heimsmeistaramótinu í 50 m laug í Gwangju í Suður-Kóreu.
Anton synti 100 m bringusund á 1:00,32 mínútu en fyrra metið setti hann á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi í maí þar sem hann synti á 1:00,33. Um leið setti hann Íslandsmet í 50 m bringusundi með því að vera með millitímann 27,66 sekúndur. Fyrra met hans þar var 27,73 sekúndur.
Anton hafnaði í 24. sæti í greininni og komst því ekki í milliriðla en til þess hefði hann þurft að synda á 59,75 sekúndum. Ólympíulágmarkið er 59,93 sekúndur og Anton var 39/100 úr sekúndu frá því.
Adam Peaty, Evrópu- og heimsmethafinn frá Bretlandi, varð fyrstur inn í milliriðlana á 57,57 sekúndum en heimsmet hans er 57,10 sekúndur.
Á morgun synda þau Eygló Ósk Gústafsdóttir og Kristinn Þórarinsson í 100 metra baksundi á HM í Gwangju.