Anton Sveinn McKee gerði sér lítið fyrir í nótt og tryggði sér farseðilinn á Ólympíuleikanna í Tókýó á næsta ári þegar hann synti 200 metra bringusund á heimsmeistaramótinu í 50 metra laug í Gwangju í Suður-Kóreu.
Tími Antons í undanriðlum var 2:10,32 mínútur, en ÓL lágmarkið í greininni er 2:10,35 mínútur. Jafnframt tryggði Anton sér sæti í milliriðlum HM og hefst sá keppnishluti klukkan 11 að íslenskum tíma.
Sundið í nótt var jafnt og Anton byrjaði mjög vel, sneri annar eftir 100 metra á millitímanum 1:02,61 mínútu og lauk svo keppni sjötti í riðlinum. Tími hans, 2:10,32 mínútur, var jafnframt 16. besti tíminn í undanriðlum og gaf sæti í milliriðlum.
Eftir því sem Sundsamband Íslands kemst næst er Anton fyrsti Íslendingurinn til að gulltryggja sig inn á Ólympíuleikana 2020.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir synti síðari greinina sína á HM í nótt. Hún fór 100 metra skriðsund á 57,34 sekúndum sem er í takti við þá tíma sem hún hefur náð á þessu ári. Sundið hennar var ágætlega útfært en hægara en hún ætlaði sér. Hennar besti tími til þessa í greininni er 56,31 sekúndur síðan á danska meistaramótinu sumarið 2018.
Snæfríður var jákvæð eftir sundið og tekur þessa þátttöku með í reynslubankann, nú þegar hún hefur undirbúning fyrir Evrópumeistaramótið í 25 metra laug sem verður í Glasgow í desember.