Laun knattspyrnumanna á Íslandi hafa hækkað talsvert á undanförnum þremur árum. Jafnframt hefur aukist mjög að leikmenn skrifi undir sérstaka viðaukasamninga við sín félög og þá er ánægja með frammistöðu lækna og sjúkraþjálfara liðanna í ár minni en árið 2016.
Þetta eru meðal helstu niðurstaða í ítarlegri könnun Leikmannasamtaka Íslands á kjörum og vinnuumhverfi leikmanna í efstu deild karla í knattspyrnu á Íslandi og er byggð á svörum 191 leikmanns í deildinni.
Laun leikmanna hafa hækkað talsvert frá árinu 2016. Af 191 leikmanni sem svaraði könnuninni í ár eru 30 prósent, eða 57 leikmenn, með laun á bilinu 242 til 485 þúsund krónur á mánuði, 28 leikmenn (15 prósent) eru með 485 til 970 þúsund á mánuði, fimm leikmenn eru með 970 til 1.820 þúsund á mánuði, tveir leikmenn eru með 1,8 til 3,6 milljónir á mánuði og þrír leikmenn kváðust vera með meira en 3,6 milljónir á mánuði í laun.
Til samanburðar var enginn með meira en 1,8 milljónir í laun á mánuði árið 2016 og 13 leikmenn fengu 485 til 970 þúsund krónur í mánaðarlaun.
Í umfjöllun um mál þetta á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag fagna leikmannasamtök Íslands þessari þróun og segja þetta sýna að hægt sé að vera atvinnumaður í knattspyrnu á Íslandi.