Tólf íslensk verðlaun í Helsinki

Íslensku verðlaunahafarnir ásamt þjálfurum. Frá vinstri: Helgi Jóhannesson, landsliðsþjálfari í …
Íslensku verðlaunahafarnir ásamt þjálfurum. Frá vinstri: Helgi Jóhannesson, landsliðsþjálfari í kata; Eydís, Aron Bjarkason, Tómas, Oddný, Aron Huynh, Þórður, Samuel, Ólafur, Viktoría, og Ingólfur Snorrason, landsliðsþjálfari í kumite. Á myndina vantar Kristjönu. Ljósmynd/Karatesamband Íslands

Íslenska landsliðið í karate tók þátt á Helsinki Karate Open mótinu í Finnlandi um helgina en yfir 600 keppendur frá 23 löndum taka þátt. Íslendingarnir unnu alls til 12 verðlauna á mótinu, eitt gull, fimm silfur og sex brons.

Frá Íslandi voru 12 keppendur og bestum árangri náðu þeir Samuel Josh Ramos og Aron Anh Ky Huynh. Samuel vann fimm af sex viðureignum sínum í U16 ára flokki í kumite og vann því gull í sínum þyngdarflokki og brons í opnum flokki. Aron vann silfur í bæði fullorðinsflokki og U21 árs flokki í kata en hann vann alla andstæðinga sína í undanrásum beggja flokka áður en hann laut í lægra haldi í úrslitum gegn víetnamska landsliðsmanninum Khuat Huy Thang sem situr í 9. sæti á heimslista þeirra sem eru yngri en 21 árs.

Verðlaunahafar Íslands voru:
Samuel Josh Ramos, gull í -63kg og brons í opnum flokki, U16 kumite.
Aron Anh Ky Huynh, silfur í U21 kata og silfur í senior kata.
Viktoría Ingólfsdóttir, silfur í opnum flokki U16 kumite.
Eydís Magnea Friðriksdóttir, silfur í U16 kata og brons í U18 kata.
Kristjana Lind Ólafsdóttir, silfur í +59 kg flokki U18 kumite.
Oddný Þórarinsdóttir, brons í U16 kata.
Tómas Pálmar Tómasson, brons í U16 kata.
Aron Bjarkason, brons í -67 kg flokki kumite.
Ólafur Engilbert Árnason, brons í -75 kg flokki kumite.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert