Ísland vann tíu gull í Laugardalshöll

Íslenska karlaliðið í kumite vann gullverðlaun.
Íslenska karlaliðið í kumite vann gullverðlaun. Ljósmynd/Karatesamband Íslands

Sjötta smáþjóðamót Evr­ópu í kara­te fór fram um helgina í Laug­ar­dals­höll. Auk Íslands sendu sex aðrar þjóðir kepp­end­ur á mótið, sem haldið var í fyrsta sinn á Íslandi. Kepp­end­ur voru frá Íslandi, Kýp­ur, Lúx­em­borg, Möltu, San Marínó, Mónakó og Liechten­stein.

Keppt var í þremur unglingaflokkum í liðakeppni í kata og bar Ísland sigur úr býtum í þeim öllum. 

Í hópkata 12-17 ára stúlkna sigraði lið Íslands skipað Oddnýu Þórarinsdóttur, Eydís Magneu Friðriksdóttur og Sunnu Rut Guðlaugardóttur. Annað íslenskt lið í sama flokki fékk brons en það var skipað Önnu Halinu Koziel, Iðu Ósk Gunnarsdóttur og Unu Borg Garðarsdóttur.

Í hópkata pilta 14-17 ára sigraði lið skipað Tómasi Pálmari Tómassyni, Tómasi Aroni Gíslasyni og Bjarna Hrafnkelssyni.

Í hópkata 12-13 ára drengja sigraði lið 6 skipað: Nökkva Benediktssyni, Birni Breka Halldórssyni og Fróða Vattnes Björnssyni. Ísland fékk einnig brons í þessum flokki. Það var lið 3: Gunnar Haraldsson, Kjartan Bjarnason og Þorgeir Björgvinsson.

Í hópkata kvenna keppti íslenska liðið til úrslita og náði silfri. Liðið var skipað þeim Svönu Kötlu Þorsteinsdóttur, Móeyju Maríu Sigþórsdóttur McClure og Freyju Stígsdóttur.

Í liðakeppni í kumite unnu unglingasveitir Íslands til fimm bronsverðlauna.

Hápunktur dagsins var svo úrslitaviðureignin í liðakeppni karla í kumite. Ísland vann sér sæti í úrslitunum með yfirburðasigri á liði Mónakó, þar sem Ólafur Engilbert Árnason og Aron Bjarkason fóru á kostum. Í úrslitunum keppti Ísland við sveit Kýpur.

Fyrstu tvær viðureignir voru hnífjafnar og spennandi, Máni Karl Guðmundsson tryggði Íslandi 2:1 sigur og Ólafur tapaði naumt, 1:2. Keppnin fór því í oddaviðureign þar sem Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson keppti fyrir Íslands hönd.

Ágúst átti frábæra viðureign en dómarar voru nískir á stig við hann, þótt hann hefði a.m.k. einu sinni náð löglegu þriggja stiga sparki í andstæðing sinn. Staðan var 2:3 Kýpverjanum í vil þegar sá steig út af vellinum á síðustu sekúndu bardagans. Þessi mistök tryggðu Íslendingum sigurinn og gullið í liðakeppni karla á heimavelli.

Íslensku keppendurnir fengu flest verðlaun, þar af 10 gull.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert