Milfred „Babe“ Didrikson Zaharias. Kona sem bar þetta áhugaverða nafn hlýtur að teljast á meðal fjölhæfustu afrekskvenna í íþróttasögunni. Didrikson náði framúrskarandi árangri bæði í frjálsum og golfi en lét auk þess að sér kveða í fleiri greinum. Var hún á meðal fyrstu kvenna í heiminum sem varð fræg fyrir íþróttaafrek.
Vegna Didriksons-nafnsins þá má láta sér detta í hug að hún hafi mögulega átt ættir að rekja til Íslands en greinarhöfundur hefur ekkert í höndunum um slíkt. Foreldrar hennar voru norskir innflytjendur í Bandaríkjunum og þar fæddist Milfred hinn 26. júní árið 1911 í Texas.
Hæfileikar hennar komu fljótt í ljós í uppvextinum þegar Didrikson tók sig til og rúllaði strákum á hennar reki upp í flestum þeim íþróttum sem krakkarnir gripu í. Á uppvaxtarárunum varð gælunafnið „Babe“ einnig til og mun vera tilkomið vegna þess að móðir hennar kallaði hana gjarnan: Min Bebe. Þegar í menntaskóla var komið voru einstakir hæfileikar hennar augljósir þar sem Milfred skaraði fram úr í körfubolta, blaki, hafnabolta, tennis, golfi og sundi og keppti fyrir skólaliðin í öllum þessum ólíku íþróttagreinum.
Hæfni hennar varð til þess að hún fékk tilboð um að spila körfubolta í áhugamannadeild sem bar nafnið Amateur Athletic Union. Milfred gaf nám upp á bátinn til að spila í deildinni en þar var hún álitin besti framherjinn í deildinni.
Árið 1932 hafði Milfred spilað körfubolta í áhugamannadeildinni í þrjú ár. Þá kom að því að hún vakti athygli víða um Bandaríkin en þá fyrir árangur í frjálsum.
Didrikson sló í gegn á bandaríska meistaramótinu í frjálsum íþróttum en þar keppti hún í átta greinum, allt frá grindahlaupi yfir í kringlukast. Didrikson keppti fyrir lið Employers Casualty í liðakeppninni en var eini fulltrúi liðsins. Í liðakeppninni voru önnur lið með marga fulltrúa sem gátu einbeitt sér að sínum bestu greinum á meðan Didrikson þurfti nánast að hlaupa á milli greina þar sem hún keppti í óvenjumörgum. Þrátt fyrir það tókst Didrikson að sigra í liðakeppninni og gefur það einhverja mynd af getu hennar í íþróttum. Sem skiljanlegt er kepptust stórblöð á borð við New York Times við að ausa hana lofi að mótinu loknu.
Þegar Ólympíuleikarnir voru haldnir í Los Angeles árið 1932 sýndi Didrikson að árangur hennar á bandaríska meistaramótinu var ekki tilviljun. Hún keppti í þremur ólíkum greinum, spjótkasti, 80 metra grindahlaupi og hástökki. Didrikson vann til tvennra gullverðlauna og einna silfurverðlauna. Hún setti heimsmet í grindahlaupinu þegar hún hljóp á 11,7 sekúndum og ólympíumet í spjótkastinu með kast upp á 43,68 metra. Hún stökk 1,65 metra í hástökkinu sem var sama hæð og sigurvegarinn komst yfir. Í ævisögu Didrikson er því haldið fram að hún sé eina konan í sögunni til að vinna til verðlauna í hlaupa-, kast- og stökkgreinum á sömu Ólympíuleikunum.
Fyrir þá sem rýna í metra og sekúndur gefur það ágæta mynd af hversu mikil íþróttakona Didrikson var. Sérstaklega ef mið er tekið af því hversu skammt á veg þjálffræðin og íþróttafræðin voru komin á millistríðsárunum. Með árangri sínum á Ólympíuleikunum öðlaðist Didrikson talsverða frægð.
Að Ólympíuleikunum loknum var íþróttaferill Didriksons þegar orðinn afar glæsilegur en hún átti þó eftir að bæta skrautfjöður í sinn hatt. Didrikson sneri sér að golfíþróttinni og lá hún vel fyrir Didrikson eins og flestar aðrar greinar.
Í golfinu skipar nafn Didrikson stóran sess því hún varð fyrsta konan til að spila á móti í PGA-mótaröðinni (mótaröð ætluð körlum). Árið 1938 var hún á meðal keppenda á Opna Los Angeles-mótinu en þá hafði hún spilað golf að ráði í fjögur ár. Næsta kona til að keppa á móti körlunum á PGA-móti var hin sænska Annika Sörenstam sem gerði það árið 2003.
Á árunum 1946-1947 sigraði Didrikson í fjórtán golfmótum í röð en ekki er vitað um lengri sigurgöngu í íþróttinni í Bandaríkjunum. Hún varð auk þess fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að sigra á Opna breska áhugamannamóti kvenna.
Didrikson var ein þeirra sem komu á fót LPGA-mótaröðinni (Ladies Professional Golf Association) og nýtur Íslendingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir nú góðs af. Didrikson vann að stofnuninni ásamt tólf öðrum konum en einnig styrktaraðilum. Didrikson var þá orðin atvinnumaður í íþróttinni og frægð hennar þykir hafa hjálpað mjög til við að LPGA náði fótfestu. Verðlaunafé á mótaröðinni þrefaldaðist á fyrstu fimm árunum. Alls sigraði hún tíu sinnum á mótum á LPGA á ferlinum.
Didrikson greindist með krabbamein árið 1953 og ekki var talið að hún myndi snúa aftur til keppni á golfvellinum. Það gerði hún hins vegar árið 1954 og sigraði þá á Opna bandaríska meistaramótinu með yfirburðum eða tólf högga mun. Sú frammistaða tryggði henni nafnbótina Íþróttakona ársins í sjötta skipti hjá AP-fréttaveitunni. Raunar valdi AP hana Íþróttakonu aldarinnar árið 1999. Hjá Sports Illustrated varð hún í öðru sæti á lista yfir bestu íþróttakonur allra tíma. Hún varð efst kvenna þegar ESPN valdi 50 bestu íþróttamenn 20. aldarinnar og í 10. sæti listans.
Didrikson þurfti að játa sig sigraða í baráttunni við krabbameinið og lést árið 1956, aðeins 45 ára.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 15. apríl 2017.