Lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna

Ekki er hvaða íþróttamaður sem er settur á frímerki.
Ekki er hvaða íþróttamaður sem er settur á frímerki.

Ekki er sennilegt að íslenskir íþróttaáhugamenn kveiki á nafninu Eddie Eagan. Sá á þó sérstakan sess í íþróttasögunni en Eagan er eini íþróttamaðurinn sem afrekað hefur að vinna til gullverðlauna í ólíkum greinum á bæði sumar- og vetrarleikum Ólympíuleikanna.

Er það merkilegt afrek og ekki verður sagt að íþróttagreinarnar tvær sem um ræðir séu sérstaklega líkar: hnefaleikar og keppni á bobsleða. Tólf ár liðu á milli þess sem gullverðlaunin voru hengd um háls hans.

Eddie Eagan var Bandaríkjamaður og fæddist í Denver í Coloradoríki hinn 26. apríl árið 1897. Eagan varð snemma hæfileikaríkur hnefaleikari og rúmlega tvítugur hafði hann unnið titla bæði í Bandaríkjunum og í Bretlandi. Síðar var um það fjallað að Eagan hefði með frammistöðu sinni breytt ásýnd hnefaleika áhugamanna á Bretlandseyjum.

Eddie Eagan.
Eddie Eagan. Ljósmynd/bandaríska ólympíusambandið

Eagan var 23 ára gamall þegar hann nældi í gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Antwerpen í Belgíu árið 1920. Þar keppti hann í léttþungavigt (ATH) og fór heim með gullið. Norðmaðurinn Sverre Sorsdal var andstæðingur Eagan í úrslitabardaganum en á leið sinni í úrslit hafði Eagan unnið Thomas Holdstock frá Suður-Afríku og Harold Franks frá Bretlandi.

Eagan hræddist ekki áskoranir í hringnum því hann ferðaðist um heiminn sem hnefaleikari eftir að hafa orðið ólympíumeistari. Eagan ferðaðist með Douglas Hamilton sem einnig var snjall hnefaleikari. Fóru þeir um Evrópu, Indland, Ástralíu og Nýja-Sjáland og samkvæmt frásögn í Sport Illustrated þá skoraði Eagan á landsmeistara í flokki áhugamanna á hverjum stað og hélt heim úr ferðinni ósigraður. Eagan gekk þó ekki eins vel á Ólympíuleikunum í París árið 1924 en þar vann hann ekki til verðlauna.

Venti kvæði sínu í kross

Eins og áður segir liðu tólf ár á milli gullverðlauna hjá Eagan en hann fékk gull á Vetrarólympíuleikunum í Lake Placid í Bandaríkjunum árið 1932. Var hann þá í liði Bandaríkjamanna í keppni á fjögurra manna bobsleðum.

Billy Fiske fór fyrir bandaríska liðinu og í hans hlut kom að stýra sleðanum. Eins langt og það náði, en sleðakeppnin var mun frumstæðari og hættulegri í þá daga. Sleðinn var opinn og búnaður keppenda til að verja sig síðri en í dag. Fiske þessi hafði unnið til gullverðlauna í greininni á leikunum 1928 og hafði því reynsluna. Hann neitaði síðar að keppa á leikunum í Garmisch-Partenkirchen 1936 vegna andstyggðar sinnar á Adolf Hitler, þáverandi kanslara Þýskalands, og stefnu nasistaflokksins. Kaldhæðni örlaganna hagaði því þannig að Fiske féll í síðari heimsstyrjöldinni en hann var í hópi allra fyrstu bandarísku flugmannanna sem skotnir voru niður.

Í bobsleðaliði Bandaríkjanna 1932 voru einnig Clifford Gray, sem einnig gat sér nafn sem lagasmiður og leikari, og James O'Brien sem einnig var hestamaður.

Eddie Eagan og félagar í sigurliði Bandaríkjanna 1932.
Eddie Eagan og félagar í sigurliði Bandaríkjanna 1932. Ljósmynd/bandaríska ólympíusambandið

Hélt dauðahaldi í handföngin

Eagan hafði enga reynslu af bobsleðum en þótti vera mjög snöggur að ná tökum á sínu hlutverki enda virtust flestar íþróttir liggja vel fyrir honum. Hann fór fjórar ferðir með liði Bandaríkjanna og urðu þær hans einu keppnisferðir á ferlinum en nægilega margar til að hreppa ólympíugull. Lýsingar Eagan af verunni í sleðanum eru fremur skrautlegar.

„Sigurferðin mun ávallt verða mér eftirminnileg. Hún tók ekki nema tvær mínútur en virtist vera heil elífð. Ég man eftir snæviþakinni jörðinni þjóta framhjá eins og hreyfimynd úr fókus. Ég hélt dauðahaldi í handföngin, varnarlaus á fleygiferð, en þó aðeins sentimetrum frá jörðinni,“ skrifaði Eagan síðar en litlu munaði að sigursveitin missti stjórn á sleðanum og þá hefðu afleiðingarnar væntanlega orðið alvarlegar. „Hefði einhver annar en Billy Fiske verið við stýrið þá hefðu við látið lífið. Við héldum lífi vegna hans.“

Með tvær háskólagráður

Tvöfaldi ólympíumeistarinn Eddie Eagan átti viðburðaríka ævi og hefur vafalítið verið merkileg persóna. Hann nam við tvær af allra virtustu menntastofnunum heims. Tók háskólagráðu í Oxford á Englandi sem skýrir hvers vegna hann átti hnefaleikaferil á Bretlandseyjum. Síðar útskrifaðist Eagan úr lagadeild Harvard í Bandaríkjunum og var því vel menntaður. Vann hann lengi hjá saksóknaraembættinu í New York.

Sigursveit Bandaríkjanna 1932. Eins og sjá má hafa sleðarnir tekið …
Sigursveit Bandaríkjanna 1932. Eins og sjá má hafa sleðarnir tekið miklum breytingum í tímans rás.

Eagan barðist í fyrri heimsstyrjöldinni og var heiðraður fyrir framgöngu sína í þeim hildarleik. Hann bauð sig fram þegar þátttaka Bandaríkjamanna í síðari heimsstyrjöldinni hófst og var einnig heiðraður fyrir framgöngu sína þar. Eagan barðist því í báðum heimsstyrjöldunum án þess að verða líkamlega meint af, eftir því sem best er vitað.

Fjárhagslega lifði Eagan öruggu lífi eftir að hafa gifst inn í Colgate-fjölskylduna sem efnast hafði af samnefndu tannkremi. Sjálfsagt hafa breiðu brosin síst verið spöruð í brúðkaupsveislunni hjá Eagan og Peggy Colgate. Eagan lést úr hjartaáfalli 69 ára gamall.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 31. mars 2018. 

Eddie Eagan ásamt Joe Louis heimsmeistara í þungavigt hnefaleika frá …
Eddie Eagan ásamt Joe Louis heimsmeistara í þungavigt hnefaleika frá 1937 - 1949. Aðdáendasíða Eagan á Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka