Uppskeruhátíð Frjálsíþróttasambands Íslands fór fram í gærkvöldi þar sem veittar voru ýmsar viðurkenningar fyrir árið 2019 en þar ber helst að nefna valið á frjálsíþróttafólki ársins. Spretthlauparinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir var valin frjálsíþróttakona ársins og sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson frjálsíþróttakarl ársins.
Guðbjörg Jóna átti frábært ár þar sem hún bætti Íslandsmet kvenna í bæði 100 og 200 metra spretthlaupi og jafnaði Íslandsmet Tiönu Óskar Whitworth í 60 metra hlaupi. Hún var hluti af 4x200 metra boðhlaupssveitinni sem setti nýtt Íslandsmet á Reykjavík International Games. Einnig setti hún nokkur aldursflokkamet, bæði sem einstaklingur og í boðhlaupi. Guðbjörg keppti á EM U20 þar sem hún varð fjórða í 200 metra hlaupi og var hluti af íslenska Evrópubikarliðinu sem kom sér upp um deild í sumar. Á uppskeruhátíðinni fékk Guðbjörg einnig Jónsbikarinn fyrir besta spretthlaupsafrekið og var valinn stúlka ársins 19 ára og yngri.
Hilmar Örn bætti Íslandsmetið í sleggjukasti á árinu með því að kasta 75,26 metra. Hilmar keppir fyrir University of Virginia og varð ACC svæðismeistari fjórða árið í röð og sá fyrsti í sögunni til þess að ná þeim áfanga. Hann sigraði svo Austurdeildina og var þriðji á bandaríska háskólameistaramótinu. Hilmar var hluti af íslenska Evrópubikarliðinu sem kom sér upp um deild í sumar og svo er hann efstur Íslendinga á heimslistanum eða í 41. sæti í sinni grein. Á uppskeruhátíðinni var Hilmar einnig valinn kastari ársins í karlaflokki.
Hér má sjá heildarlista yfir viðurkenningar ársins 2019