Rússar í fjögurra ára keppnisbann

Merki Ólympíuleikanna sem haldnir voru í Moskvu árið 1980.
Merki Ólympíuleikanna sem haldnir voru í Moskvu árið 1980. AFP

Rússar voru í dag úrskurðaðir í fjögurra ára bann frá öllum stórum íþróttaviðburðum af WADA, Alþjóðalyfjanefndinni, en framkvæmdastjórn hennar komst að þessari niðurstöðu á fundi í Lausanne í Sviss.

Rússar geta þar með ekki keppt undir sínum fána á stórum íþróttaviðburðum eins og Ólympíuleikunum 2020 í Tókýó og heimsmeistarakeppni karla 2022 í Katar.

Rússneskt íþróttafólk sem getur sannað sakleysi sitt gagnvart lyfjahneyksli Rússa má hins vegar keppa undir hlutlausum fána.

Ástæðan fyrir banninu er sú að lyfjanefnd Rússa var úrskurðuð vanhæf eftir að hafa átt við gögn um lyfjapróf sem afhent voru rannsakendum í janúar á þessu ári. Þau gögn þurftu Rússar að afhenda WADA í kjölfarið á að þeim var leyft að keppa á ný árið 2018, eftir að hafa áður fengið þriggja ára keppnisbann vegna lyfjahneykslisins sem opinberað var í landinu árið 2015.

Alls kepptu 168 Rússar undir hlutlausum fána á Vetrarólympíuleikunum í Suður-Kóreu árið 2018. Rússar hafa verið banni hjá Alþjóðafrjálsíþróttasambandinu frá árinu 2015.

Bannið hefur ekki áhrif á þátttöku Rússa í lokakeppni Evrópumóts karla árið 2020 en þeir hafa unnið sér keppnisrétt þar. Ástæðan er sú að UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, er ekki talið einn af „stærstu skipuleggjendum íþróttaviðburða“ eins og kveðið er á um í reglum lyfjanefndarinnar.

Rússar hafa þriggja vikna frest til að áfrýja úrskurðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert