Kristín og Emin aftur þau bestu

Emin Kadri Eminsson og Kristín Sif Björgvinsdóttir ásamt Guðna Th. …
Emin Kadri Eminsson og Kristín Sif Björgvinsdóttir ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands.

Hnefaleikasamband Íslands hefur útnefnt íþróttafólk ársins 2019 úr sínum röðum og fyrir valin urðu þau sömu og í fyrra, Kristín Sif Björgvinsdóttir og Emin Kadri Eminsson.

Á heimasíðu HNÍ er sagt frá valinu á Kristínu á eftirfarandi hátt:

Kristín Sif Björgvinsdóttir úr HR er hnefaleikakona ársins 2019, annað árið í röð. Kristín hefur átt 12 viðureignir á ferli sínum, þar af 6 á liðnu ári og unnið 4 af þeim. Kristín hefur verið dugleg að sækja reynslu út fyrir landsteinana en tvisvar hefur hún farið á Golden Girl-æfingabúðirnar í Svíþjóð. Í ár voru þær haldnar í Skene síðustu helgina í ágúst undir stjórn Cherrelle Brown, WBC-heimsmeistara í hnefaleikum og þjálfara hennar, Sabatino Leo, sem náð hefur einstökum árangri í þjálfun áhugamanna og atvinnumanna í hnefaleikum. Um 50 stelpur sóttu þessar glæsilegu búðir og komu þær úr hinum ýmsu klúbbum Skandinavíu. Undir lok búðanna hlaut Kristín Sif ásamt 5 öðrum stelpum sérstaka viðurkenningu fyrir góðan árangur sem er mikill heiður í ljósi úrtaksins og þeirra fagmanna sem stóðu að valinu.

Kristín Sif hefur líka af þessum 12 bardögum ferils síns keppt helming þeirra utan landsteinanna en hún hreppti silfurverðlaun á Norðurlandamótinu í hnefaleikum annað árið í röð. Það er í fyrsta skiptið sem íslensk hnefaleikakona nær þeim árangri. Kristín hreppti einnig silfurverðlaun á Legacy Cup, gríðarlega sterku alþjóðlegu móti sem haldið var í Noregi í október síðastliðnum, en í millitíðinni varð Kristín Sif síðan Íslandsmeistari í -75 kg flokki kvenna er hún vann úrslitaviðureign sína á Íslandsmeistaramótinu í hnefaleikum 2 mánuðum fyrir mótið í Noregi. Nú er Kristín í fullum undirbúningi fyrir Golden Girl Cup, eitt stærsta áhugamannamót heims í hnefaleikum sem haldið verður í Svíþjóð dagana 31. jan – 2. feb 2020 og ætlar hún sér stóra hluti þar.

Á heimasíðu HNÍ er sagt frá valinu á Emin á eftirfarandi hátt:

Emin Kadri Eminsson úr HFK hefur verið kosinn sem hnefaleikamaður ársins 2019, einnig annað árið í röð. Emin varð 17 ára á árinu og er einn efnilegasti og virkasti hnefaleikamaður landsins. Emin byrjaði árið á að keppa á hnefaleikamóti á Norður Írlandi. Emin keppti þar við sterkan Íra og sigraði hann örugglega. Hann var einnig valinn besti hnefaleikamaðurinn á mótinu sem telst góður árangur þar sem sterkir keppendur voru þar á meðal keppanda. Þar á meðal Evrópusilfurverðlaunahafi.

Emin var skráður á Íslandsmeistaramótið en því miður var enginn skráður í hans flokk. Emin tók þátt fyrir hönd Íslands á Norðurlandamótinu sem haldið var í Finnlandi, þar sigraði hann Finna í undanúrslitum en tapaði gegn sterkum Dana í úrslitum. Í maí keppti síðan Emin á sterku móti í London þar sem hann stóð sig vel en þurfti að lúta í lægra haldi í þeirri viðureign á móti gríðarlega sterkum Breta sem er nú orðinn atvinnumaður í greininni. Emin hefur verið mjög virkur í keppnum og er nú búin að keppa sautján sinnum og vinna fjórtán af þeim viðureignum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert