Íslenska landsliðið í alpagreinum er nú í Kanada við æfingar og keppni en í Nakiska er keppt í Norður-Ameríkubikarnum. Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir hafnaði í 21. sæti í stórsvigi og Sturla Snær Snorrason í 20. sæti í svigi.
Keppendur voru 93 í stórsviginu á miðvikudag og var Hólmfríður í 41. sæti eftir fyrri ferðina og vann sig því upp um tuttugu sæti í síðari ferðinni. Fékk hún 71.28 FIS-stig fyrir en hennar besti árangur hingað til er 60.05 FIS-stig. Hólmfríður Dóra féll úr keppni í svigi í fyrri ferðinni í gær.
Fékk hún 10 stig í stigakeppni N-Ameríkubikarsins fyrir stórsvigið og eftir tvö mót á mótaröðinni er hún með 22 stig. Um er að ræða næststerkustu mótaröðina innan FIS.
Sturla Snær keppti einnig í stórsvigi en var ekki á meðal sextíu efstu í fyrri ferðinni og fór því ekki síðari ferðina. Í sviginu í gær náði hann sér á strik og hafnaði í 20. sæti og fékk 45,19 FIS-stig en 120 keppendur voru skráðir. Hans besti árangur er 36,34 FIS-stig.
Sturla fékk 11 stig í stigakepni N-Ameríkubikarsins.
Þau verða aftur á ferðinni í svigi í kvöld.