Harmsagan um hafnaboltastjörnuna

Roberto Clemente.
Roberto Clemente.

Roberto Clemente er ekki þekktasta nafnið í eyrum íþróttaáhugafólks á Íslandi en orðspor hans lifir þó víða.

Clemente var stjarna í íþrótt sem Íslendingar fylgjast ekki sérlega vel með eða hafnabolta. Raunar má líklega halda því fram að í Evrópu sé áhugi á þeirri íþrótt lítill. Fyrir utan vaska framgöngu innan vallar þá varð Clemente einnig frægur fyrir framlag sitt til líknarmála.

Hafnabolti er iðulega kallaður þjóðaríþrótt Bandaríkjamanna og hjá krökkum þar vestra er álíka hversdagslegt að leika sér í þeirri íþrótt eins og að sprauta súkkulaði út í mjólkurglasið. Okkar maður, Roberto Clemente, var þó ekki af bandarísku bergi brotinn. Clemente fæddist 18 ágúst árið 1934 í Púertóríkó. Clemente heillaðist snemma af hafnabolta en var einnig efnilegur í frjálsum íþróttum. Svo fór að hann ákvað að leggja fyrir sig hafnaboltann og hóf ferilinn í heimalandinu.

Clemente var atvinnumaður í Púertóríkó en færði sig til Kanada árið 1954 og gekk til liðs við Royals í Montreal. Þar var hann uppgötvaður af njósnara Pittsburgh Pirates. Sá kom strax auga á hæfileika Clemente sem þó hafði þurft tíma til að aðlagast loftslaginu í Kanada auk þess að læra tungumálið.

Tók tíma að vinna hug og hjörtu

Í húsakynnum Pittsburgh Pirates hlýtur að hanga mynd af njósnaranum sem vildi veðja á Clemente. Leikmaðurinn sló í gegn svo um munaði og er goðsögn hjá liðinu og í allri deildinni. Nafnið „Bob“ Clemente er þó líklega ekki síður frægt en Roberto Clemente en fjölmiðlamenn fjölluðu gjarnan um Bob Clemente.

Róm var ekki byggð á einum degi og það tók Clemente tíma að spila sig inn í hjörtu Bandaríkjamanna. Hann var úr Karíbahafinu og kunni ekki góð skil á enskunni til að byrja með. Þá var hann að hluta af afrískum uppruna og varð fyrir talsverðum kynþáttafordómum.

Langur og glæsilegur ferill

1960 var árið sem markaði þáttaskil hjá Clemente en þá fór hann líka með himinskautum með liði Pittsburgh. Þá sigraði liðið í MLB-deildinni amerísku (Major League Baseball) og Clemente var valinn í Stjörnuleikinn. Sá heiður hlotnaðist honum alls tólf sinnum á árunum 1960-1972.

Roberto Clemente naut mikillar hylli bæði vegna framgöngu sinnar innan …
Roberto Clemente naut mikillar hylli bæði vegna framgöngu sinnar innan vallar sem utan.

Ferill Clemente var langur og glæsilegur. Spilaði hann til ársins 1972 eða þar til hann var 38 ára gamall. Fékk hann ýmsar frekari vegtyllur. Hann varð aftur meistari með Pittsburgh Pirates árið 1971 og liðu því ellefu ár á milli meistaratitlanna. Eftir úrslitarimmuna árið 1971 var hann valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar. Einu sinni hlotnaðist Clemente sá heiður að vera valinn besti leikmaður deildarinnar og gerðist það árið 1966. Auk þess fékk Clemente ýmsar aðrar viðurkenningar og var nokkrum sinnum efstur í einstökum þáttum íþróttarinnar sem haldið er utan um.

Örlagarík för

Roberto Clemente naut ekki einungis vinsælda sem leikmaður því framganga hans utan vallar vakti mikla athygli. Clemente var duglegur að láta gott af sér leiða og þegar MLB-deildin var í fríi þá eyddi hann þeim tíma gjarnan í góðgerðarstarf. Ferðaðist hann þá til Mið- og Suður-Ameríku en einnig til Karíbahafsins og með nauðsynjavörur fyrir bágstadda auk þess að dreifa vörum tengdum hafnaboltanum.

Á Þorláksmessu árið 1972 reið harður jarðskjálfti yfir Managua, höfuðborg Níkaragúa með þeim afleiðingum að þúsundir manna létu lífið. Atburðirnir létu Clemente ekki ósnortinn en hann hafði heimsótt borgina þremur vikum fyrir atburðina sorglegu.

Clemente hóf strax að senda nauðsynjar á hamfarasvæðið. Viku síðar komst hann að því að þrjár sendingar sem hann hafði staðið fyrir að senda nýttust ekki fórnarlömbunum þar sem þær lentu í klónum á spilltum stjórnmálamönnum. Clemente ákvað að fara sjálfur í leiðangur til Níkaragúa á gamlársdag til þess að koma nauðsynjum til bágstaddra en það reyndist hins vegar vera hans hinsta för.

Hvílir í votri gröf

Flugvélin náði aldrei á áfangastað heldur hrapaði í Atlantshafið ekki ýkja langt frá Isla Verde í Púertóríkó. Hrapaði hún raunar mjög skömmu eftir flugtakið. Lík Clemente fannst aldrei frekar en þriggja annarra sem um borð voru en lík flugmannsins fannst þó nokkrum dögum eftir slysið. Ýmsar ástæður virðast hafa verið fyrir þessum harmleik. Líkur eru taldar á því að vélin hafi verið ofhlaðin auk þess sem bilanatíðni umræddrar vélar hafði verið nokkur en hún var Cargo-vél af gerðinni Douglas DC-7. 

Roberto Clemente.
Roberto Clemente.

Í minningarathöfninni um Clemente mættu allir liðsfélagar hans nema einn, Manny Sanguillén. Sá var náinn vinur Clemente og kaus heldur að kafa í sjónum þar sem vélin hrapaði í þeirri von um að finna lík Clemente.

Bjóst ekki við langlífi

Roberto Clemente lést því einungis 38 ára gamall og var mörgum harmdauði. Svo einkennilega vill til að Clemente hafði orðið tíðrætt um að hann myndi deyja ungur. Ekkja hans, Vera, lýsti því til að mynda í viðtali við ESPN árið 2002.

Hinn 20. mars árið 1973 var Clemente tekinn inn í frægðarhöll hafnaboltans, Hall of Fame, eða nokkrum mánuðum eftir að hann týndist. Með því var hliðrað til reglu um að íþróttamaður sé ekki tekinn inn í þann félagsskap nema liðnir séu sex mánuðir frá andláti eða fimm ár frá því viðkomandi hætti að spila.

Clemente var enn leikmaður í deildinni þegar hann fór í flugferðina afdrifaríku. Kringumstæður þóttu vera þess eðlis að mikill vilji var fyrir því að heiðra minningu Clemente sem allra fyrst. Í atkvæðagreiðslunni fékk hann um 93% atkvæða og varð þar með fyrsti leikmaðurinn frá S-Ameríku og Karíbahafinu til að komast í frægðarhöll hafnaboltans.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. desember 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert