„Ég er enginn villingur“

Frá leiknum gegn Tyrklandi í kvöld.
Frá leiknum gegn Tyrklandi í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þeir gera það ekki enda­sleppt ungu leik­menn­irn­ir í kvenna­landsliðinu í ís­hokkí. Lið Íslands leik­ur nú í 2. deild B á HM á Ak­ur­eyri og í kvöld vann Ísland 6:0 sig­ur á Tyrkj­um. Sil­vía Rán Björg­vins­dótt­ir skoraði þrjú mörk í leikn­um en hin 15 ára Hilma Bóel Bergs­dótt­ir skoraði þriðja mark leiks­ins og var það henn­ar fyrsta mark fyr­ir A-landsliðið. Í síðasta leik skoraði Saga Blön­dal sitt fyrsta mark en hún er 16 ára.

Hilma Bóel var feng­in í stutt spjall eft­ir leik en gam­an er að geta þess að 17 ára syst­ir henn­ar, Al­dís Kara, er skauta­kona árs­ins 2019 og marg­fald­ur meist­ari í list­d­ansi.

Sæl Hilma. Þú ert í hokkí­inu en syst­ir þín í list­d­ansi. Byrjaðir þú kannski líka þar?

„Já ég byrjaði í list­d­ansi. Ég man svo að eft­ir nokkr­ar æf­ing­ar, ekki marg­ar, þá fór ég heim og sagði við mömmu og pabba að ég ætlaði að hætta í þessu og byrja í ís­hokkí eins og Guðrún Blön­dal.“

Af hverju Guðrún Blön­dal?

„Hún var al­gjör fyr­ir­mynd, var bara eins og önn­ur mamma mín. Hún var ná­granni okk­ar og börn­in henn­ar eru mín­ir æsku­vin­ir.

En Al­dís syst­ir þín. Fór hún aldrei í ís­hokkí?

„Nei hún hef­ur ekk­ert prófað það. Hún er að standa sig vel í sínu.“

Nú veit ég að hún er mjög ró­leg og hæ­versk. Ert þú þá vill­ing­ur­inn í fjöl­skyld­unni?

„Ne-hei“ seg­ir Hilma og skell­ir upp úr. „Ég er eng­inn vill­ing­ur. Ég er bara mjög góð.“

Nú varst þú að skora fyrsta landsliðsmarkið þitt og ert þá vænt­an­lega með pökk­inn ein­hvers staðar.

„Já ég er með hann í hend­inni. Hann er hérna,“ seg­ir Hilma og sýn­ir pökk­inn.

Hvernig finnst þér svo að vera að spila í þessu liði?

„Mér finnst það mjög gam­an. Það er æðis­legt að spila með þess­um stelp­um. Þær eru frá­bær­ar og ég er mjög stolt að vera með þeim í liði.“

Þær eru nokkr­ar eldri í liðinu, m.a. ein­hverj­ir af gömlu þjálf­ur­un­um þínum. Er ekki smá fúlt að átrúnaðargoðið, Guðrún Blön­dal, skuli vera hætt?

„Nei. Hún er alltaf öskr­andi á okk­ur uppi í stúku. Hún er því alltaf hjá okk­ur.

Nú voru tveir liðsfé­lag­ar þínir, þær Anna Sonja Ágústs­dótt­ir og Flosrún Vaka Jó­hann­es­dótt­ir, báðar að spila sinn 50. lands­leik í kvöld. Ert þú með ein­hver mark­mið varðandi landsliðið?

„Mig lang­ar að vera í liðinu þangað til ég get ekki meir. Ég ætla mér að halda áfram, kannski 20 ár í viðbót,“ sagði bros­mild skott­an að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert