Lokaumferðin í 2. deild B á HM kvenna var leikin á Akureyri í dag. Tyrkir og Króatar tóku daginn snemma og spiluðu kl. 10. Þann leik unnu Tyrkir 5:2. Stórleikur dagsins var svo á milli nágrannaþjóða Ástralíu og Nýja-Sjálands þar sem búast mátti við hörkuleik enda efsta sæti riðilsins í húfi. Ástralía rúllaði hins vegar yfir Nýja-Sjáland og vann 7:1. Ástralar tryggðu sér þar með gullið en jafnframt Íslendingum silfrið. Nýja-Sjáland var svo öruggt með bronsið.
Úrslitin í lokaleik Íslands skiptu því engu máli fyrir röð efstu liðanna en andstæðingarnir frá Úkraínu urðu að krækja sér í stig til að sleppa við fall. Lið Úkraínu er ansi sérstakt en elstu leikmenn þar á bæ eru 47 ára og alls fjórir leikmenn yfir fertugu. Verða þetta að teljast merkilegar staðreyndir fyrir land með rúmlega 40 milljónir íbúa. Úkraína hafði tapað öllum leikjum sínum á mótinu en hafði þó tvö stig eftir að hafa tapað tvívegis eftir framlengingar.
Hvað Ísland varðaði var mesta spennan um það hvort Silvía Rán Björgvinsdóttir myndi ná stigatitli mótsins en stig fást fyrir mörk og stoðsendingar. Fyrir leikinn var Silvía Rán með tíu stig fyrir sex mörk og fjórar stoðsendingar, stigi á eftir Áströlunum Michelle Clark-Crumpton og Natasha Farrier.
Leiknum lauk með öruggum 7:0-sigri Íslands en Úkraínumenn byrjuðu leikinn af kappi og voru hættulegir á upphafsmínútunum. Karítas Halldórsdóttir varði nokkur skot en Ísland átti líka sín færi. Um miðjan leikhlutann var allur broddur úr þeim úkraínsku og Ísland þyngdi sóknir sínar. Ekki tókst að koma pökknum í markið og staðan var því 0:0 eftir upphafskaflann.
Í öðrum leikhlutanum brast stíflan og Ísland skoraði fimm mörk. Kolbrún María var fyrst á blað. Í kjölfarið hljóp kapp í Úkraínukonur og þær ógnuðu marki Íslands nokkrum sinnum en voru klaufar að skora ekki. Sunna Björgvinsdóttir bætti svo við marki. Þriðja mark Íslands gaf svo náðarhöggið í leiknum en það skoraði Teresa Snorradóttir, þá nýkomin úr refsiboxinu. Nú var það eiginlega bara spurning um hve mörg íslensku mörkin yrðu. Hilma Bóel skoraði, þriðja leikinn í röð, og mark frá Silvíu Rán kom henni í efsta sæti á stigalista mótsins.
5:0 var staðan fyrir lokaleikhlutann og Ísland bætti við tveimur mörkum í lokaleikhlutanun. Flosrún Vaka Jóhannesdóttir setti loks mark og svo endaði Silvía Rán leikinn á einni neglu upp í skeytin. 7:0 varð niðurstaðan og leikmenn Íslands gátu vel við unað.
Silvía Rán varð stigahæst á mótinu og næstmarkahæst. Sunna Björgvinsdóttir var kosin besti leikmaður Íslands á mótinu.
Mörk/stoðsendingar:
Ísland: Silvía Rán Björgvinsdóttir 2/1, Sunna Björgvinsdóttir 1/2, Ragnhildur Kjartansdóttir 0/3, Kolbrún María Garðarsdóttir 1/1, Teresa Snorradóttir 1/0, Flosrún Vaka Jóhannesdóttir 1/0, Hilma Bóel Bergsdóttir 1/0, Brynhildur Hjaltested 0/1, Eva Karvelsdóttir 0/1.
Refsimínútur:
Ísland: 6 mín.
Úkraína: 10 mín.