Vann 12 af 13 stórmótum

Katarina Witt í lausu lofti á móti í Herne árið …
Katarina Witt í lausu lofti á móti í Herne árið 1993. Reuters

Þegar Vetrarólympíuleikar standa yfir beinist kastljósið yfirleitt mest að keppninni í íshokkí eða alpagreinum. Allir viðburðir á slíkum leikum fá athygli en kastljósið beinist yfirleitt mest að þessum greinum. Á Vetrarólympíuleikunum í Calgary í Kanada varð raunin þó önnur en samkvæmt upprifjunum fjölmiðlafólks við ýmis tækifæri var einna mest athygli á keppni í kvennaflokki í listdansi á skautum.

Beðið var með mikilli eftirvæntingu eftir baráttu þeirra Katarinu Witt og Debi Thomas. Þessir keppinautar gátu vart komið frá ólíkari ríkjum. Witt frá AÞýskalandi og Thomas frá Bandaríkjunum.

Katarina Witt sló í gegn fyrir alvöru þegar hún varð Ólympíumeistari í Sarajevo í Bosníu árið 1984 sem þá hét Júgóslavía. Hafði hún þá betur gegn Rosalyn Sumners frá Bandaríkjunum sem fyrir fram var talin sigurstranglegust. Árið 1984 var Witt handhafi allra stóru titlanna. Var Ólympíu-, Evrópu- og heimsmeistari í greininni. Í lok árs var hún kjörin íþróttakona ársins í A-Þýskalandi sem var talsverður heiður því A-Þjóðverjar áttu fjölda heimsklassaíþróttakvenna í mörgum greinum, til dæmis í frjálsum. Enda var lagt upp með að ná árangri í íþróttum á alþjóðvettvangi í A-Þýskalandi.

Katarina Witt fagnar í Sarajevo árið 1984.
Katarina Witt fagnar í Sarajevo árið 1984.

Ástæða þess að Debi Thomas var talin eiga möguleika á gullinu í Calgary var sú að sú bandaríska hafði slegið Witt við á heimsmeistaramótinu í Genf í Sviss árið 1986. Bandaríkin tefla oft fram sterku fólki í skautadansinum og því var vafalaust pressa á Thomas þótt meiri kröfur hafi verið gerðar til Witt eftir mikla velgengni árin á undan. Fjölmiðlaumfjöllunin um þær tók einnig mið af því að þær notuðust báðar við tónlist í æfingum sínum úr óperunni Carmen eftir Bizet. Fyrir vikið fjölluðu fjölmiðlar í enskumælandi löndum um samkeppnina á milli þeirra sem Battle of the Carmens fyrir leikana í Calgary.

Evrópumeistari sex ár í röð

Katarina Witt fæddist hinn 3. desember 1965 og ólst upp í Karl Marx Stadt í austurhluta Þýskalands sem í dag heitir Chemnitz. Hún byrjaði að skauta 5 ára gömul og gekk í framhaldinu í skóla sem ætlaður var börnum sem hefðu mikla íþróttahæfileika. Þar tók við henni reyndur þjálfari, Jutta Müller, sem sjálf hafði keppt á skautum. Hún átti eftir að fylgja Witt allan ferilinn og hafði mikil áhrif. Witt þykir sjarmerandi persóna og Müller mun hafa hjálpað henni að draga það fram á ísnum.

Fyrsti sigur Witt á stórmóti kom á Evrópumótinu árið 1983 og hún fylgdi því eftir með frábærum árangri árið eftir sem fyrr segir. Witt varð raunar Evrópumeistari sex ár í röð, frá 1983 – 1988, og jafnaði þar afrek Sonju Henie frá Noregi. Sex sigrar í röð á EM er enn met en Irina Slutskaya frá Rússlandi sló þeim við í fjölda titla og vann EM sjö sinnum.

Katarina Witt í Calgary1988.
Katarina Witt í Calgary1988. Reuters

Witt varð einnig heimsmeistari árið 1985 og 1987 þegar hún endurheimti titilinn. Debi Thomas hafnaði í 2. sæti á HM á 1987 á bandarískri grundu en mótið fór fram í Cincinatti. Ýtti þetta frekar undir þær vangaveltur um að baráttan um gullið í Calgary myndi standa á milli þeirra. Í Calgary hafði Witt betur og kom sér endanlega þægilega fyrir í sögubókunum. Ekki að ástæðulausu því hún vann tólf af þrettán stórmótum á árunum 1983-1988. 

Thomas tókst ekki að framkvæma æfingar sínar nægilega vel í Calgary og varð að gera sér bronsið að góðu. Ef til vill hafði reynslan nokkuð að segja því Witt sigldi í gegnum sínar æfingar án mikilla vandræða en Thomas þótti reyna erfiðari æfingar sem gengu ekki fullkomlega upp.

Vakti athygli á stríðinu

Witt hætti keppni árið 1988 en hún hafði náð að afreka það að vinna ólympíugull á tvennum leikum í röð. Hún hafði þá keppt í ellefu ár. Raunar hafði Witt ætlað sér að láta staðar numið árið 1986 en sigur Thomas á HM 1986 breytti þeim áformum. Witt vildi ekki hætta á þeim nótum.

Witt kom geysilega á óvart þegar hún tilkynnti fimm árum síðar að hún hefði sett stefnuna á að vera með á ÓL í Lillehammer. Var því haldið fram í fjölmiðlum að um einhvers konar brellu væri að ræða til að vekja á sér athygli. Witt myndi draga sig úr keppni áður en að leikunum kæmi.

Hún vann sig hins vegar inn á leikana og keppti þar en Witt langaði meðal annars að keppa fyrir sameinað Þýskaland. Áratugur var liðinn frá því hún vann gullið í Sarajevo. Hún minnti á að nú geisaði þér grimmileg borgarastyrjöld og framkvæmdi æfingar sínar við lagið Where have all the flowers gone. Hafnaði hún í 7. sæti í Lillehammer.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 1. apríl 2020. 

Morgunblaðið fjallar um sigur Witt í Calgary hinn 1. mars …
Morgunblaðið fjallar um sigur Witt í Calgary hinn 1. mars 1988.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka