Gamla ljósmyndin: Fyrsti Evrópumeistarinn

Úr landskeppni Íslands og Danmerkur á Melavelli 1950. Gunnar Huseby …
Úr landskeppni Íslands og Danmerkur á Melavelli 1950. Gunnar Huseby á efsta palli. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Íþrótta­deild mbl.is og Morg­un­blaðsins held­ur áfram að gramsa eftir myndum í mynda­safni Morg­un­blaðsins og mbl.is. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá fyrsta íslenska Evrópumeistarann í íþróttum, Gunnar Huseby, á efsta þrepi að sjálfsögðu. 

Myndina tók hinn þekkti ljósmyndari Ólafur K. Magnússon á Melavellinum sumarið 1950. Um er að ræða landskeppnina við Dani þar sem Ísland vann Danmörku í fyrsta skipti. Var um liðakeppni í frjálsum íþróttum að ræða. 

Gunnar sigraði ekki bara í sinni sterkustu grein kúluvarpinu heldur náði einnig að sigra í kringlukastinu í þessari landskeppni. 

Árið 1950 er vitaskuld frægt ár í íþróttasögunni því þá fóru Íslendingar frægðarför til Belgíu á EM í Brussel sem fram fór á Heysel-leikvanginum. Þar sigraði Gunnar með yfirburðum í kúluvarpinu og náði sínu lengsta kasti á ferlinum, 16,74 metrum. Torfi Bryngeirsson varð Evrópumeistari í langstökki og Örn Clausen fékk silfurverðlaun í tugþraut svo helstu afrek séu upptalin.

Gunnar varð hins vegar einnig Evrópumeistari fjórum árum áður í Osló. Þá kastaði hann 15,56 metra. 

Gunnar Huseby var tekinn inn í Afrekshöll ÍSÍ hinn 18. apríl 2015. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka