Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, sat fyrir svörum á upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í dag. Ræddi hún m.a. áhrif kórónuveirunnar á fjármál íþróttahreyfingarinnar.
„Íþróttaiðkendurnir árið 2018 voru 104 þúsund, sem þýðir að 30 prósent þjóðarinnar eru íþróttaiðkendur. Í fræðunum er talað um eitt launað starf fyrir hverja ellefu þátttakendur, sem gera um 9.500 störf innan hreyfingarinnar. Þá eru 35 sjálfboðaliðar fyrir hverja 100 íþróttamenn og það gera 37 þúsund sjálfboðaliða, sem er um 10 prósent landsmanna,“ útskýrði Líney.
Hún segir tekjutap vegna veirunnar vera gríðarlegt og er tekjutapið í kringum tvo milljarða.
„Velta íþróttahreyfingarinnar 2018 var um 26 milljarðar, þar voru framlög og styrkir fyrirtækja um 12 milljarðar, auglýsingatekjur tæpur milljarður og æfingagjöld forráðamanna 3,2 milljarðar. Tekjur af mótum voru tæpir tveir milljarðar. Meðallaun og verktakagreiðslur á mánuði í íþróttahreyfingunni voru 750 milljónir, sem gera 9 milljarða á ári. Það má ætla að áhrif veirunnar á tekjufallið séu tveir milljarðar.“
Íþróttahreyfingin fékk 450 milljónir króna í fyrsta aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar í síðasta mánuði og mun ÍSÍ úthluta þeim styrkjum. „Við fengum það verkefni að úthluta 450 milljónum og þessi úthlutun mun snúa að almennum og sértækum aðgerðum. Almenna aðgerðin mun taka mið á reiknireglu og koma til framkvæmda strax en sértæku aðgerðirnar verða háðar umsóknum,“ sagði Líney og bætti við að upphæðin væri ekki nægilega há, en vonast væri til hreyfingin yrði styrkt frekar.