Frú Bryant í mál vegna mynda af þyrluslysinu

Vanessa Bryant og Kobe Bryant á Óskarsverðlaunahátíðinni árið 2018.
Vanessa Bryant og Kobe Bryant á Óskarsverðlaunahátíðinni árið 2018. AFP

Vanessa Bryant, ekkja körfuboltagoðsagnarinnar Kobe Brynt sem lést á voveiflegan hátt í þyrsluslysi ásamt dóttur þeirra Gianna í janúarmánuði á þessu ári, hyggst lögsækja lögregluyfirvöld í Los Angeles, vegna ólöglegrar dreifingar á myndum af slysvettvangi. AFP greinir frá.

Ákæran var lögð fram á hendur lögregluembættinu á föstudag og krefst Vanessa greiðslu skaðabóta vegna þess tilfinningalega tjóns sem hún hefur orðið fyrir í kjölfar þess að lögregluþjónar í LA tóku myndir af slysvettvangi og deildu með öðrum.

Fjölmargir lögregluþjónar voru á slysstað sem hverjir tóku myndir á síma af „látnum börnum, foreldrum og þjálfurum“, segir í ákærunni en samkvæmt henni hafa lögregluyfirvöld nú þegar viðurkennt að myndatökurnar hefðu ekkert rannsóknarlegt gildi.

Tóku myndir fyrir sig persónulega

Öllu heldur hafi lögregluþjónarnir tekið myndir fyrir sig persónulega, segir í ákærunnni en þeir einu sem hafa leyfi til þess að taka myndir af slysstað eru rannsakendur á vegum rannsóknarnefndar samgangna þar í landi (e. National Transportation Safety Board) og aðilar á vegum dánardómstjóra.

Kobe Bryant.
Kobe Bryant. AFP

Alex Villanueva, lögreglustjóri í Los Angeles, viðurkenndi í mars að lögreglumennirnir hefðu tekið myndir á slysstað, eftir að Los Angeles Times hafði skrifað um tilurð þeirra.

Vefsíðan TMZ greindi í kjölfarið frá barþjóni sem hefði sent inn kvörtun vegna myndanna þar sem lögreglumaður í þjálfun hefði verið að sýna öðrum viðskiptavini myndir af slysstað.

Villanueva sagði í mars að embættið hefði fundið út hvaða lögregluþjónar það væru sem ættu í hlut og hefði gert ráðstafanir svo að myndunum yrðu eytt og yrði þannig komið í veg fyrir frekari dreifingu.

Frá slysstað. Níu manns létust í slysinu.
Frá slysstað. Níu manns létust í slysinu. AFP

Á sama tíma fór Vanessa fram á innri endurskoðun á rannsókn slyssins og krafðist refsingar fyrir þá sem áttu í hlut.

Nóg að eyða myndunum

Í stað þess að rannsaka þessar ásakanir formlega og greina útbreiðsluna og jafnframt koma í veg fyrir frekari útbreiðslu, sögðu lögreglufyrivöld við lögregluþjónana að þeir myndu ekki fá neina refsingu ef þeir myndu bara henda eyða myndunum,” segir í ákærunni samkvæmt tímaritinu People Magazine, sem hefur hana undir höndum en samkvæmt henni hefur hluti af myndunum farið í dreifingu á veraldarvefnum.

Þessi ákæra snýst aðeins um að fólki sæti ábyrgð gerða sinna, að vernda fórnarlömbin og það að tryggja að enginn þurfi að glíma við svona hluti í framtíðinni,” sagði talsmaður fjölskyldunnar við People.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka