Gamla ljósmyndin: Sexfaldur sigurvegari á Paralympics

Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum. 

Kristín Rós Hákonardóttir átti því að venjast á keppnisferli sínum að koma heim til Íslands drekkhlaðin verðlaunum að lokinni keppni á mótum erlendis. 

Á myndinni tekur hún við heillaóskum í Leifsstöð við komuna heim frá Ástralíu eftir langt og strangt ferðalag haustið 2000. Kristín Rós hafði þá keppt á Ólympíumóti fatlaðra, Paralympics, í Sydney og nældi í tvenn gullverðlaun, tvenn bronsverðlaun og setti tvö ólympíumótsmet. Gull í 100 metra bringusundi og 100 metra baksundi en brons í 100 metra skriðsundi og 200 metra fjórsundi. Ingibjörg Pálmadóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra, færir Kristínu blómvönd. 

Myndin er tekin af Kristni Ingvarssyni sem myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is um árabil. 

Kristín Rós er ein almesta afrekskona í íslenskri íþróttasögu en velgengni hennar í sundkeppni Paralympics var með ólíkindum en á þeim vettvangi fékk hún sex gullverðlaun, tvenn silfurverðlaun og fern bronsverðlaun.  Keppti hún á fimm Paralympics frá 1988 til 2004 en á keppnisferli sínum setti hún alls sextíu heimsmet ef met í 25 og 50 metra laug eru lögð saman og níu ólympíumótsmet. 

Kristín keppti í flokki S7 og er spastísk vinstra megin eftir að hafa fengið hettusótt þegar hún var 18 mánaða. 

Kristín Rós hefur sennilega fengið stærri vegtyllur á erlendum vettvangi en nokkur annar íslenskur íþróttamaður. Fékk til að mynda SportStars-verðlaunin árið 2004 hjá Eurosport og Alþjóðaólympíunefndinni og Toyp-verðlaunin (Ten Outstanding Young Persons of the World) hjá Junior Chamber árið 2003 en fremur sjaldgæft er að íþróttafólk fái þau verðlaun.  

Kristín Rós var tólf ár í röð valin íþróttakona ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Hún hafnaði tvívegis í 4. sæti í kjörinu á Íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna. Árin 2000 og 2004. Hún var fjórum sinnum valin Íþróttamaður Reykjavíkur, 1997, 2000, 2001 og 2004. 

Kristín Rós hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2001.

Kristín Rós var útnefnd í Heiðurshöll ÍSÍ 28. desember 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka