Gamla ljósmyndin: Sá fyrsti í 28 ár

Mbl.is/Júlíus

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Myndin er tekin í Höfða snemma árs árið 1985 þegar tilkynnt var að júdókappinn Bjarni Friðriksson úr Ármanni hefði verið valinn Íþróttamaður Reykjavíkur árið 1984. Á myndinni má sjá Bjarna taka við bikarnum úr hendi Davíðs Oddssonar, þáverandi borgarstjóra. 

Ekki var þetta í eina skiptið sem Bjarna hlotnaðist þessi heiður en hann varð einnig fyrir valinu 1989 og 1990. 

Myndina tók hinn reyndi ljósmyndari Júlíus Sigurjónsson sem myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is árum saman. 

Bjarni Friðriksson vann til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum árið 1984 í Los Angeles. Varð hann þar með annar til að vinna til verðlauna fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikum á eftir Vilhjálmi Einarssyni en 28 ár liðu á milli afreka þeirra. 

Bjarni lagði Ítalann Yuri Fazi í glímunni um bronsið en áður hafði hann unnið Bandaríkjamanninn Leo Withe en þau úrslit komu mjög á óvart. 

Bjarni hlaut sæmdarheitið Íþróttamaður ársins árið 1990 hjá Samtökum íþróttafréttamanna en hafði tvívegis áður hafnað í 2. sæti. Árið 1984, aðeins þremur stigum á eftir Ásgeiri Sigurvinssyni, og 1988, aðeins fimm stigum á eftir Einar Vilhjálmssyni. 

Á glæsilegum ferli tókst Bjarna að sigra á heimsbikarmóti en einnig ýmsum opnum mótum til dæmis í Skotlandi og Danmörku. Á Norðurlandamótum áttu andstæðingarnir erfitt uppdráttar gegn Bjarna sem vann til fimm gullverðlauna á þeim vettvangi. Hann fékk silfurverðlaun á Opna breska meistaramótinu og glímdi í undanúrslitum á EM. Þá hafnaði hann í 7. sæti á HM, 7.-8. sæti á ÓL 1980 og í 9. sæti á ÓL 1988. 

Bjarni keppti fjórum sinnum á Ólympíuleikum. Í Moskvu 1980, í Los Angeles 1984, í Seoul 1988 og Barcelona 1992. 

Bjarni var útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ hinn 29. desember 2012. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert