Reebok, stærsti styrktaraðili heimsleikanna í CrossFit, hefur ákveðið að hætta að styrkja CrossFit HQ vegna rasískra ummæla Greg Glassman, upphafsmanns og forstjóra CrossFit. Reebok mun standa við skuldbindingar sínar fyrir leika þessa árs, en svo er samstarfinu lokið.
Fjallað er um málið hjá Forbes, en Katrín Tanja Davíðsdóttir, tvöfaldur heimsmeistari í CrossFit, varð í gær fyrsta stóra nafnið í CrossFit-heiminum til að fordæma ummæli Glassman opinberlega.
Glassman svaraði tísti heilsutölfræðistofnunar Washington-háskóla, þar sem rasismi var sagður lýðheilsuvandamál, með því að skrifa „ It's FLOYD-19“ og gera þannig lítið úr dauða George Floyd, sem drepinn var af lögregluþjóni við handtöku, sem valdið hefur mótmælaöldu í Bandaríkjunum og víðar.
Auk þessa tísts Glassman gagnrýnir Katrín Tanja viðbrögð Glassman við gagnrýni og ákalli Alyssa Royse, starfsmanns Rocket Community Fitness-líkamsræktarstöðvarinnar, sem hefur aðild að CrossFit, um að CrossFit myndi tjá sig opinberlega um og fordæma rasisma. Í svari Glassman til Alyssu skrifar hann, að því er sjá má í skjáskoti sem Katrín Tanja birtir, segir hann hana m.a. haldna ranghugmyndum, ógeðslega og jafnvel illa innrætta. Þá endar hann tölvupóstinn á að segjast skammast sín fyrir hana.
Framferði Glassman hefur valdið mikilli reiði innan CrossFit-heimsins og er í umfjöllun Forbes jafnvel fullyrt að trúverðugleika CrossFit hafi verið stefnt í hættu, auk þess sem ófyrirséð er um fjárhagslega framtíð heimsleikanna vegna afsagnar Reebok sem aðalstyrktaraðila leikanna.