Sólveig Jóhannesdóttir Larsen var besti maður vallarins þegar lið hennar Fylkir vann 3:1-sigur gegn KR í 2. umferð úrvalsdeildar kvenna, Pepsi Max-deildarinnar, á Meistaravöllum í Vesturbæ í síðustu viku.
Sólveig, sem er 19 ára gömul, átti stóran þátt í fyrsta marki Fylkis og þá fiskaði hún vítaspyrnu í leiknum. Hún fékk tvö M fyrir frammistöðu sína hjá Morgunblaðinu.
Sóknarmaðurinn öflugi á að baki 32 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands en hún er á láni hjá Fylki í sumar frá Breiðabliki.
„Leikplanið gegn KR gekk fullkomlega upp ef svo má segja,“ sagði Sólveig í samtali við Morgunblaðið. „Að sama skapi fannst mér leikurinn frekar kaflaskiptur. Við áttum góða spilkafla inn á milli, alveg eins og þær. Markmiðið í leiknum var að leyfa þeim að vera með boltann, pressa þær vel á eigin vallarhelmingi og sækja svo hratt á þær þegar við myndum vinna boltann.
KR-liðið setti oft á tíðum mikla pressu á okkur í leiknum og ég fékk alveg á tilfinninguna í fyrri hálfleik að þær væru að fara að vinna leikinn. Við mættum hins vegar af miklum krafti út í síðari hálfleikinn og sigurinn var sanngjarn.“
Fylksliðið er með fullt hús stiga eftir tvo erfiða leiki gegn Selfossi og KR. „Við höfum byrjað þetta mót virkilega vel og þótt við höfum kannski ekki verið mjög yfirlýsingaglaðar í upphafi móts þá setjum við stefnuna hátt. Lið eins og Selfoss talaði mikið fyrir tímabilið og fyrir mér þá getur það líka sett óþarfa pressu fyrir mótið. Það má samt ekki gleymast að yfirlýsingar fyrir deildina búa til ákveðna stemningu líka sem er vel.
Viðtalið í heild sinni og úrvalslið 2. umferðar má sjá í Morgunblaðinu í dag.