Gamla ljósmyndin: Systkinin

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Á myndinni stilla systkini sér upp fyrir Morgunblaðið en viðtal birtist við þau í sunnudagsblaði Morgunblaðsins hinn 20. janúar árið 2002.

Birtist myndin á forsíðu blaðsins og var tekin af Golla, Kjartan Þorbjörnssyni, sem myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áraraðir. 

Á myndinni frá vinstri eru Jón Arnór Stefánsson, Eggert Stefánsson, Stefanía Stefánsdóttir og Ólafur Stefánsson sem er hálfbróðir hinna þriggja.

Skapti Hallgrímsson ræddi við þau fyrir Morgunblaðið og í umfjöllun hans segir meðal annars:  

Ólafur er talinn einn allra besti handknattleiksmaður í heiminum um þessar mundir ef ekki sá besti; Jón Arnór einn besti körfuknattleiksmaður landsins, ef ekki sá besti; Eggert er einn efnilegasti knattspyrnumaður Íslendinga og væri líklega orðinn atvinnumaður hefðu meiðsli ekki sett strik í reikninginn í haust og Stefanía varð Íslandsmeistari í tennis.“

Á þessum tíma vakti árangur þeirra ekki einungis athygli heldur valdi ekkert þeirra sömu íþróttagreinina og hin og ekkert þeirra keppti fyrir sama félag í meistaraflokki hér heima. Ólafur keppti fyrir Val, Stefanía fyrir Þrótt, Eggert fyrir Fram og Jón Arnór fyrir KR. 

Þegar viðtalið birtist var Ólafur 28 ára, Stefanía 23 ára, Eggert 22 ára og Jón Arnór 19 ára. 

Þau Stefanía og Eggert hættu tiltölulega snemma í keppnisíþróttum í samanburði við Ólaf og Jón Arnór sem áttu reyndar sérlega glæsilegan feril og spiluðu lengi. Raunar liggur ekki alveg fyrir hvort Jón sé hættur í körfuboltanum en hann hefur gefið það sterklega í skyn. 

Ólafur hlaut fjórum sinnum sæmdarheitið íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna, 2002, 2003, 2008 og 2009 og Jón Arnór árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert