Gamla ljósmyndin: Gullstóll

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá þá Karl Guðmundsson, fyrirliða, Sæmund Gíslason og Þórð Þórðarson bera Ríkharð Jónsson í gullstól út af Melavellinum hinn 29. júní árið 1951 eftir óvæntan 4:3 sigur Íslendinga á Svíum í vináttuleik. 

Ekki er algengt að knattspyrnufólk sé slíkur sómi sýndur af samherjum sínum en var ekki að ástæðulausu því Ríkharður skoraði öll fjögur mörk Íslands í leiknum. Kom Ríkharður boltanum raunar fimm sinnum í netið í leiknum en eitt markið var dæmt af. 

Myndina tók hinn kunni ljósmyndari Ólafur K. Magnússon og birtist hún fyrst í Morgunblaðinu daginn eftir eða 30. júní árið 1951. Hefur hún af og til birst í blaðinu í gegnum áratugina og ættu margir íþróttaáhugamenn að kannast við myndina. 

„Í fáum orðum sagt var það mest einkennandi fyrir þennan leik, hversu Ríkharður Jónsson bar af á vellinum,“ stóð meðal annars í umfjöllun Morgunblaðsins um leikinn. Þar segir einnig að mikill áhugi hafi verið á leiknum þótt sigurvonin hafi fyrir fram verið lítil.

Enginn hefur skorað fleiri mörk í sama A-landsleik karla fyrir Ísland en Arnór Guðjohnsen jafnaði afrek Ríkharðs fjörtíu árum síðar þegar hann skoraði fjögur mörk í 5:1 sigri á Tyrkjum á Laugardalsvelli. 

Ríkharður skoraði 17 mörk fyrir A-landsliðið í knattspyrnu í aðeins 33 leikjum. Er hann fjórði markahæstur í sögu liðsins og var markahæstur þar til Eiður Smári Guðjohnsen komst upp fyrir hann árið 2007. Síðar varð Ríkharður landsliðsþjálfari og stýrði liðinu í tólf leikjum. 

Ríkharður var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2002 og var útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ hinn 30. desember árið 2015. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert