Gamla ljósmyndin: Markið gegn Frökkum

Morgunblaðið/Einar Falur Ingólfsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Íslenska landsliðið kom knattspyrnuheiminum í opna skjöldu í 1. umferð undankeppni EM karla þegar liðið fékk Frakkland í heimsókn á Laugardalsvöll síðsumars 1998. Um sumarið höfðu Frakkar orðið heimsmeistarar á heimavelli og voru með ógnarsterkt lið. Svo sterk raunar að þeir náðu að verða Evrópumeistarar sumarið 2000, þrátt fyrir að hafa lent í miklu basli gegn Íslendingum í báðum leikjum þjóðanna í undankeppninni. 

Liðin skildu jöfn 1:1 á Laugardalsvellinum fyrir framan 10.382 áhorfendur hinn 5. september 1998 eins og íþróttaunnendur þekkja. Ásýnd leiksins og umgjörð var óvenjuleg fyrir þær sakir að komið var fyrir bráðabirgðastúkum sitt hvoru megin og voru því áhorfendur fyrir aftan bæði mörkin. Tók völlurinn af þeim sökum 3.500 fleiri áhorfendur. 

Myndina tók Einar Falur Ingólfsson sem starfað hefur fyrir Morgunblaðið í áratugi sem ljósmyndari og blaðamaður. 

Á myndinni sést miðherjinn Ríkharður Daðason skalla knöttinn yfir markvörðinn Fabian Barthez sem fór langt frá marki sínu til að freista þess að ná til boltans. Á myndinni sést einnig Hermann Hreiðarsson fylgjast með og Christian Karembeu snýr baki í myndavélina. 

Rúnar Kristinsson tók aukaspyrnu og sendi langa sendingu inn á vítateiginn en aukaspyrnan var skemmtilega útfærð því Eyjólfur Sverrisson stóð í vegi fyrir Barthez, Ríkharður varð á undan og skallaði knöttinn í netið. Christoph Dugarry jafnaði fyrir Frakka á 36. mínútu. 

Ísland barðist við Frakka og Úkraínumenn um að komast á EM 2000 og var með í þeirri baráttu þar til lokaflautið gall í lokaleiknum. 

Ríkharður lék 44 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði í þeim 14 mörk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka