„Maður er það klikkaður“

Martin Hermannsson hefur skrifað undir samning við Valencia í spænsku …
Martin Hermannsson hefur skrifað undir samning við Valencia í spænsku úrvalsdeildinni. mbl.is/Árni Sæberg

Martin Hermannsson er aðeins 25 ára en nokkuð er síðan hann festi sig í sessi sem besti körfuknattleiksmaður okkar Íslendinga. Hann varð Þýskalandsmeistari með Alba frá Berlín í júní og lék með þeim í EuroLeague, sterkustu Evrópukeppninni, í vetur. Hann gengur í ágúst til liðs við Valencia, sem leikur í EuroLeague og spænsku deildinni, þeirri sterkustu í Evrópu.

„Ég ákvað að keyra á þetta í lok síðustu viku eftir að hafa tekið tvær vikur, tvær og hálfa, alveg í frí,“ segir Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, er við hittumst í lok júlímánaðar. „Ég byrjaði að æfa síðasta mánudag og hef ekki getað gengið síðan,“ segir hann kíminn.

Hann segir þetta sumar vera nokkuð frábrugðið því sem hann á að venjast. „Þetta er fyrsta sumarið síðan 2009 hjá mér þar sem það er ekkert landsliðsverkefni í gangi,“ segir Martin en hann hefur verið með yngri eða A-landsliðum á þessum árum. Hann hefur fest sig í sessi sem besti körfuboltamaður þjóðarinnar, verið valinn körfuboltamaður ársins af KKÍ síðustu fjögur árin og varð annar í kjöri á íþróttamanni ársins í fyrra.

Eftir að tímabilinu var frestað í þýsku úrvalsdeildinni vegna kórónuveirunnar í mars kom Martin heim til Íslands. „Þá vissi enginn neitt, það vissi enginn hvort tímabilið yrði klárað, en Þjóðverjarnir voru bjartsýnir á að ég þyrfti að koma aftur.“ Hann þurfti að fara í sóttkví í tvær vikur hér heima og gat lítið æft á meðan. Ákveðið var svo að klára deildina í Þýskalandi.

„Þetta gerðist mjög hratt. Ég var látinn vita að ég þyrfti að koma út og tveimur dögum seinna var ég kominn til Berlínar. Menn voru stressaðir yfir því að það yrði mikið um meiðsli, margir búnir að þyngjast, og allir dottnir úr leikformi, þannig.“

Lið Martins, Alba Berlin, varð meistari fyrir tómu húsi í júní og vann þar með tvöfalt í ár en liðið varð bikarmeistari í febrúar. Liðið vann alla sína leiki í úrslitakeppninni, sem sett var af stað þegar byrjað var að spila aftur í byrjun júní. „Við náðum að gera mikið á stuttum tíma og púsla okkur saman.“

Var skrítið að fagna fyrir tómu húsi?

„Ég sagði áður en ég fór út að það myndi enginn bera virðingu fyrir þessum titli en eftir að við unnum var þetta geggjað. Þegar maður er að spila finnur maður ekki fyrir þessu. Þegar það eru kannski fimmtán þúsund manns í höllinni „sónar“ maður samt einhvern veginn út og finnur ekki fyrir þeim. Það var þannig séð ekki skrítið á meðan maður var inni á vellinum en eftir á, þegar við fögnuðum titlinum sjálfum, var þetta frekar furðulegt allt saman.“

Liðinu gafst færi á að fagna titlinum í lestarferðinni heim til Berlínar frá München, þar sem úrslitakeppnin fór fram. „Ég bið bara fólkið afsökunar sem þurfti að vera með okkur í þeim vagni,“ segir Martin og hlær.

Fannst ég betri en þessir gæjar

Martin var alltaf efnilegur körfuboltamaður, byrjaði snemma að æfa með meistaraflokki og var valinn í yngri landslið Íslands. Hann var þó ekki einn sá besti, fyrst um sinn. „Þegar hjólin byrjuðu að snúast gerðist þetta hratt. Ég var seinþroska, frekar grannur, lítill og aldrei sérstaklega fljótur, hoppaði ekki hátt eða var sterkur. Ég hef allan minn feril þurft að finna leiðir til að skora og laga leikinn að mínum líkama.“

Árið 2010 varð landslið 16 ára og yngri Norðurlandameistari og var Martin valinn bestur á mótinu. „Árið áður var ég í 15 ára landsliðinu og var ekki einu sinni í byrjunarliðinu. Ég tók það svolítið inn á mig. Mætti að æfa fyrir skóla, æfði eftir æfingar, tók 60 armbeygjur hvert einasta kvöld. Þetta hljómar ekki mikið en þegar maður gerir þetta á hverjum degi skilar þetta sér. Ég fann þvílíkan mun.“

„Mér fannst bara mjög þægilegt að vera á bíl og …
„Mér fannst bara mjög þægilegt að vera á bíl og kunni að skemmta mér án áfengis,“ segir Martin. mbl.is/Árni Sæberg

Ólíkt mörgum öðrum drakk Martin ekki áfengi í menntaskóla og er það til marks um metnað og einbeittan vilja hans til að ná langt í íþróttinni. „Mér fannst bara mjög þægilegt að vera á bíl og kunni að skemmta mér án áfengis. Ég sá ekki tilganginn í að fara að drekka strax. Þegar ég vaknaði ferskur á laugardags- eða sunnudagsmorgnum til að fara á æfingu vildu vinir mínir margir kúra aðeins lengur. Ég sá þá oft ekki á helgaræfingum.“

Á þessum árum var markmið Martins alveg skýrt: hann ætlaði að verða bestur. „Ég fann innra með mér að það ætti eitthvað eftir að gerast og þegar líkaminn myndi þroskast myndi ég taka fram úr þessum gaurum sem voru fyrir framan mig.“

15 ára var Martin tekinn inn í meistaraflokk KR og segir hann hafa verið pirrandi að fá ekki að spila strax. Leikskilningurinn og tæknilegur þáttur íþróttarinnar var nógu góður en ekki var sömu sögu að segja um líkamlega þáttinn. „Mér fannst ég vera betri en þessir gæjar en ég átti bara ekki séns ef það var aðeins ýtt við mér eða ég þurfti að spila vörn.“

Að vera valinn bestur á Norðurlandamótinu gaf honum byr undir báða vængi og hlutirnir gerðust hratt eftir það. 17 ára var Martin tekinn inn í 20 ára landsliðið, 18 ára var hann farinn að spila mikið með meistaraflokki og valinn í A-landsliðið, 19 ára var hann orðinn besti leikmaður úrvalsdeildarinnar. „Þetta gerðist allt svo hratt að ég áttaði mig kannski ekki á því sem var að gerast. Fyrir mér var mjög eðlilegt að þetta væri að gerast á þessum aldri. Sem er auðvitað galið þegar maður hugsar út í það núna.“

Martin Hermannsson skorar sigurkörfuna á síðustu sekúndum leiksins gegn Sviss …
Martin Hermannsson skorar sigurkörfuna á síðustu sekúndum leiksins gegn Sviss í Laugardalshöllinni fyrir ári síðan. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heræfingar í New York

Eftir að hafa útskrifast úr Verzlunarskóla Íslands 2014, orðið Íslandsmeistari með KR og verið valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar hélt Martin til Bandaríkjanna í háskólanám á skólastyrk. Nokkur viðbrigði voru að koma þangað, allt annað umhverfi og meira æft en hér heima.

„Líkamlega tók ég fáránlegt stökk á fyrstu tveimur mánuðunum. Styrkurinn og formið varð allt annað. Ég held líka að það sé eitthvað smá í matnum þarna úti sem er ekki hér heima. Ég var allt í einu farinn að bæta aðeins á mig og komnir einhverjir vöðvar,“ segir Martin en bætir við að þetta hafi þó verið erfitt.

„Það var æfing á morgnana, hlaupið á ströndinni eða teknar heræfingar. Það var skóli á daginn, aftur æfing í hádeginu og smá skóli aftur. Svo vorum við kannski kallaðir á skotæfingar eða vídeófundi. Svo kom maður heim á kvöldin og þá var eitthvert heimanám sem þurfti að gera. Maður var gjörsamlega búinn á því.“ 

Íslendingurinn þurfti að sanna sig

Að tveimur árum liðnum ákvað Martin að halda í atvinnumennsku. Fyrsti áfangastaðurinn í atvinnumennsku var franska B-deildarliðið Étoile í Charleville-Méziéres í norðurhluta Frakklands. „B-deildin þar er frekar sterk, það kom mér á óvart. Ég var drullupirraður að umboðsmaðurinn skyldi ekki finna eitthvað betra fyrir mig. Það var erfitt að sætta sig við að fara í aðra deild. Þarna kemur sjálfstraustið aftur inn. Ég horfði á leiki í B-deildinni og hugsaði að ég væri miklu betri en þessir gaurar og svo horfði ég á leiki í efstu deild og hugsaði að ég gæti léttilega spilað þarna. Menn þorðu ekki að taka sénsinn á einhverjum litlum Íslendingi.“

Þurftirðu meira að sanna þig því þú ert Íslendingur?

„Já, sérstaklega vegna þess hvernig leikurinn minn er. Ég er mikið með boltann og þarf svolítið að stjórna liðinu. Við erum ekki hátt skrifuð körfuboltaþjóð. Kannski svona á seinni árum höfum við náð smá virðingu. Fyrstu árin í atvinnumennsku vildu menn fyrst sjá mig spila hérna eða þarna og þá væru þeir áhugasamir. Það var bara erfitt að finna lið og ég þurfti að fara á stað þar sem ég fengi mikið að spila.

Ég hugsaði bara: „Ég fer þarna og sanna mig.“ Ég var ekkert sáttur enda launin ekkert spes, þannig séð. Maður var að fara í smá hark og vissi að ef maður sannaði sig þarna myndu góðir hlutir gerast. Og það gerðist.“

Martin fylgdi svo þjálfara sínum hjá Étoile í lið í efstu deild í Frakklandi ári seinna og fékk þar stórt hlutverk. „Það var hárrétt skref hjá mér að taka.“ Þar var hann í eitt ár áður en hann hélt til Alba Berlin í Þýskalandi.

Martin í leik með Alba Berlin í EuroLeague.
Martin í leik með Alba Berlin í EuroLeague. Ljósmynd/EuroLeague

Fljótur að gleyma

Var erfitt að taka alltaf þessi litlu skref upp á við?

„Það var það en ég og umboðsmaðurinn minn settumst niður og settum upp þriggja ára plan með ákveðinn tröppugang. Í stað þess að fara í stærra lið þar sem maður væri ekki öruggur með leiktíma og sitja á bekknum tók ég kannski aðeins lægra stig og fékk að gera mistök, þroskast sem leikmaður og sanna mig.“

Þegar Martin hélt til Berlínar 2018 var það hans fyrsta stóra stökk í körfuboltaheiminum. Alba Berlin spilar í þýsku úrvalsdeildinni, einni bestu í Evrópu, og hafði nýlega tapað í úrslitum deildarinnar árið áður. „Þetta var risaskref, enginn Íslendingur hafði spilað þarna og lið með mikla sögu,“ segir Martin. Hann fékk strax stórt hlutverk hjá liðinu, var ætlað að leika bæði sem leikstjórnandi og skotbakvörður, sem hann var þó ekki eins vanur.

Liðið spilar í 15 þúsund manna höll sem er full á stórum leikjum liðsins, þegar liðið spilar í úrslitakeppni eða Bayern München kemur í heimsókn.

„Ég vil spila í EuroLeague með bestu liðum í Evrópu,“ sagði Martin í viðtali fyrir heimildarmynd Bjarts Sigurðssonar um kappann sem kom út árið 2017. „Það halda örugglega margir að ég sé klikkaður en síðan ég var ungur hef ég alltaf haft bilað sjálfstraust. Mig dreymir um að komast í þessi stóru lið.“

Á síðasta tímabili spilaði Martin loks í EuroLeague, þar sem öll sterkustu lið Evrópu mæta til leiks.

Hvernig var tilfinningin að komast loksins í EuroLeague?

„Hún var geggjuð. Þegar ég skrifa undir hjá Alba eru þeir í EuroCup, keppninni fyrir neðan. Á sama tíma var ég með tilboð frá EuroLeague-liði og umboðsmanninum fannst ég klikkaður að taka því ekki. En mér fannst ég þurfa að fara í lið þar sem ég myndi venjast því að spila tvo, þrjá leiki í viku.

Ég vissi að ef við lentum í efstu tveimur sætunum færum við í EuroLeague árið eftir og þess vegna gerði ég tveggja ára samning. Fyrsti EuroLeague-leikurinn var geggjaður; ég fæ ennþá gæsahúð þegar ég hugsa um hann. Maður var samt fljótur að gleyma að maður væri á þessu sviði. Maður er það klikkaður að mér fannst bara eðlilegt að vera þarna. Sem er náttúrlega galið.“

Ekki bara peningar í fótboltanum

Stendurðu mjög vel launalega?

„Já, þetta er miklu meira en fólk gerir sér grein fyrir. Ég held að samningurinn sem ég var að gera núna sé sá stærsti sem nokkur Íslendingur hefur gert í körfubolta. Eftir þessi þrjú ár [sem samningurinn gildir] gæti ég þess vegna hætt að spila og komið heim. Ef ég spila peningunum rétt myndi ég líklegast ekki þurfa að vinna aftur.

Við Anna María [Bjarnadóttir, unnusta Martins] erum búin að kaupa okkur íbúð hér heima sem við eigum skuldlaust. Ég held að það sé markmið margra í lífinu og það er mjög gott að vera búinn að því. Eins lítið og ég hef gaman af því að tala um peninga þá er gaman að segja frá því að maður getur haft það mjög gott sem körfuboltamaður, ef þú kemst á þetta stig. Það halda margir að það sé bara fótboltinn þar sem hægt er að fá mikla peninga.“

Nánar er rætt við Martin í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka