Gamla ljósmyndin: Á söguslóðum

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Þórey Edda Elísdóttir náði besta árangri Íslendinga á Ólympíuleikunum árið 2004 þegar hún hafnaði í 5. sæt í stangarstökki. Stökk Þórey yfir 4,55 metra eins og raunar sú sem hafnaði í 4. sæti en Þórey þurfti fleiri tilraunir til að fara yfir 4,55 metra og hafnaði því í 5. sæti. 

Í undankeppninni vann Þórey sig inn í úrslit með því að stökkva 4,40 metra. 

Þórey Edda varð fyrir vonbrigðum þegar hún komst ekki í úrslit á leikunum í Sydney árið 2000 og árangurinn fjórum árum síðar var því kærkominn enda næstbesti árangur íslenskrar konu á Ólympíuleikum.

Ólympíuleikarnir árið 2004 fóru fram í Aþenu en leikarnir til forna fóru fram í Grikklandi og þar drýpur íþróttasagan af hverju strái. Á myndinni má sjá Þóreyju með hinar fornfrægu rústir á Akrapolishæðinni í Aþenu í baksýn. Myndina tók Kjartan Þorbjörnsson, Golli, sem myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is á leikunum. Þórey hafði þá lokið keppni og gat leyft sér að skoða sig um að njóta uppskeru erfiðisins. 

Þórey sem keppti fyrir FH er Íslandsmethafi í stangarstökki og hefur met hennar staðið frá því í júlí árið 2004 en þá stökk hún 4,60 metra í Madríd. 

Þórey Edda hafnaði í 2. sæti í kjörinu á Íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna árið 2004. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert