Annar Englendinganna biðst afsökunar

Phil Foden lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Íslandi á laugardaginn …
Phil Foden lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Íslandi á laugardaginn en hefur nú verið sendur heim. AFP

Phil Foden, annar tveggja leikmanna enska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem gerðust sekir um brot á íslenskum sóttvarnareglum í gær, hefur beðist opinberlega afsökunar á málinu. 

Foden skrifaði í færslu sinni á Twitter að hegðun hans hefði ekki verið í samræmi við væntingar. 

Foden, sem er leikmaður Manchester City í ensku úrvalsdeildinni, var ásamt Mason Greenwood, leikmanni Manchester United, sektaður af íslenskum yfirvöldum, en þeir unnu 1:0-sigur á íslenska liðinu í Þjóðadeild UEFA á laugardag. Fram kemur á vef RÚV að þeir hafi báðir greitt sektirnar. 

„Ég bið Gareth Southgate afsökunar, ég bið liðsfélaga mína í enska landsliðinu afsökunar, starfsmenn, stuðningsmenn og einnig félag mitt og fjölskyldu,“ skrifar Foden í yfirlýsingu sinni, en Southgate, sem er þjálfari enska landsliðsins, tilkynnti í dag að þeir Foden og Greenwood yrðu sendir aftur til Englands á meðan liðið fer til Danmerkur.

„Ég er ungur leikmaður og á margt ólært, en ég er meðvitaður um þá miklu ábyrgð sem ég ber sem leikmaður Manchester City og Englands á þessu stigi. Við þetta tilefni tók ég lélega ákvörðun og hegðun mín uppfyllti ekki þær væntingar sem gerðar eru til mín,“ segir Foden. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka