Kom í mark nær dauða en lífi

Gabriela Andersen skjögrar í mark.
Gabriela Andersen skjögrar í mark. Reuters

Þau hafa verið mörg söguleg 400 metra hlaupin á Ólympíuleikunum gegnum tíðina en eitt það allra eftirminnilegasta var alls ekki 400 metra hlaup, heldur lokahnykkur maraþonhlaups; þegar hin svissneska Gabriela Andersen-Schiess kláraði þrekraunina á leikunum í Los Angeles 1984 með miklum herkjum vegna ofþornunar.

Áhorfendur, bæði á staðnum og í beinni útsendingu í sjónvarpinu, störðu agndofa á aðfarirnar þegar hún skjögraði inn á Ólympíuleikvanginn, augljóslega komin að fótum fram. Bráðaliðar ruku til en Andersen-Schiess gaf þeim skýr merki um að láta sig í friði enda vissi hún sem var að hún yrði dæmd úr leik myndu þeir snerta hana. Bráðaliðarnir héldu að sér höndum enda sáu þeir að hún væri enn að svitna sem benti til þess að enn væri ofurlítið eldsneyti á tankinum.

Andersen-Schiess fékk því að klára síðustu 400 metrana með nokkrum stoppum, þar sem hún greip um höfuð sér, á 5 mínútum og 44 sekúndum undir dynjandi lófataki og hvatningarópum frá áhorfendum. Sjaldan hefur keppandi á Ólympíuleikum verið eins staðráðinn í að ljúka keppni, þrátt fyrir að vera ekki í nokkru standi til þess. Hún komst á endanum í mark á 2:48:42, tæpum 24 mínútum á eftir sigurvegaranum, Joan Benoit frá Bandaríkjunum, og hafnaði í 37. sæti af 44 keppendum. Hlúð var að Andersen-Schiess um leið og hún kom í mark og fékk hún að fara heim tveimur klukkustundum síðar.

Tæplega 30 stiga hiti

Þetta var fyrsta maraþonhlaup kvenna á Ólympíuleikum og hrakfarir Andersen-Schiess urðu vatn á myllu þeirra sem voru sannfærðir um að það væri tóm vitleysa að leyfa konum að hlaupa maraþon. Fátt benti þó til þess að ofþornunin hefði nokkuð með kyn Andersen-Schiess að gera. Mjög hlýtt var þennan dag, tæpar 30 gráður, og á þessum tíma var aðeins heimilt að gefa keppendum vökva fimm sinnum á þeim rúmu 42 kílómetrum sem hlaupnir eru. Andersen-Schiess var svo óheppin að missa af seinustu stöðinni og þornaði því meira en hún hefði þurft að gera. Hún var orðin 39 ára, sem er hár aldur fyrir keppanda á Ólympíuleikum, en eigi að síður í hópi þeirra bestu í heiminum og hafði unnið tvö alþjóðleg hlaup árið áður og þótti sigurstrangleg á Ólympíuleikunum.

Gabriela Andersen-Schiess.
Gabriela Andersen-Schiess.

Andersen-Schiess átti um tíma svissneska metið í bæði 10.000 metra hlaupi og maraþoni. Hún starfaði á þessum tíma sem skíðaleiðbeinandi í Sun Valley í Idaho í Bandaríkjunum. Andersen-Schiess var fljót að ná vopnum sínum og hálfum mánuði síðar lauk hún mun lengra fjallahlaupi á hálfri fimmtu klukkustund. Sannkallað járnhjarta.

Eins óþægilegt og það var að fylgjast með Gabrielu Andersen-Schiess ljúka maraþoninu í Los Angeles 1984 þótti þrautseigja hennar til mikillar fyrirmyndar og hefur veitt fjölmörgum íþróttamönnum innblástur allar götur síðan.

„Lífið er fullt af bakslögum og ég segi alltaf við sjálfa mig: Aldrei gefast upp, reyndu alltaf að ná markmiðum þínum,“ sagði hún síðar.

Andersen-Schiess er 75 ára í dag og stundar enn þá skíði af kappi en er hætt að hlaupa maraþon.

Greinin birtist fyrst í SunnudagsMogganum hinn 1. ágúst 2020. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert