Íslandsmet Vésteins loks slegið

Guðni Valur Guðnason.
Guðni Valur Guðnason. Ljósmynd/ÍSÍ

Eitt elsta Íslandsmetið í frjálsum íþróttum var slegið í dag þegar Guðni Valur Guðnason úr ÍR sló Íslandsmet Vésteins Hafsteinssonar í kringlukasti. 

Guðni Valur þeytti kringlunni 69,35 metra og stórbætti bæði metið og eigin árangur. Vésteinn kastaði 67,74 metra árið 1989 og hafði metið því staðið í þrjátíu og eitt ár. 

Metið setti Guðni Valur á Haustkastmóti ÍR sem fram fór í Laugardalnum en fram kemur hjá Frjálsíþróttasambandinu að tíðindin séu háð hefðbundnu samþykktarferli Íslandsmeta venju samkvæmt. 

Guðni átti best 65,53 metra í greininni og tekur því út geysilega miklar framfarir á einu bretti með þessu risakasti. 

Ekki nóg með að Íslandsmetið sé loks slegið heldur á Guðni fimmta lengsta kast í heiminum í ár. Lágmarkið fyrir Ólympíuleikana í Tókýó á næsta ári er 66 metrar en tímabilið þar sem hægt verður að vinna sér keppnisrétt á leikunum hefst 1. desember. 

Guðni Valur Guðnason í keppni í kúluvarpi í Laugardalshöllinni.
Guðni Valur Guðnason í keppni í kúluvarpi í Laugardalshöllinni. mbl.is/Sigurður Ragnarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert