Nýliðarnir unnu deildarmeistarana

Hamarsmenn fögnuðu sigri í fyrsta leik.
Hamarsmenn fögnuðu sigri í fyrsta leik. Ljósmynd/Guðmundur Erlingsson

Nýliðar Hamars í úrvalsdeild karla í blaki tóku í gærkvöld á móti deildarmeisturum síðustu leiktíðar, Þrótti frá Neskaupstað.

Leikurinn fór fram í Hveragerði og var leikið fyrir luktum dyrum samkvæmt fyrirmælum Blaksambands Íslands en fyrirkomulagið var ákveðið í kjölfar upplýsingafundar almannavarna.

Hamarsmönnum var, þrátt fyrir að vera nýliðar, spáð efsta sæti af þjálfurum og fyrirliðum í deildinni og má segja að liðið hafi staðið undir væntingum í fyrsta leik.

Sigur Hamars var öruggur en Þróttur átti þrátt fyrir það góða spretti og lét Hamarsmenn vinna fyrir stigunum þremur. Lokastaðan í leiknum var 3:0 fyrir Hamar og unnust hrinurnar 25:22, 25:21 og 25:16.

Stigahæstur í liði Hamars var Jakub Madej með 13 stig en stigahæstur í leiknum var spænski Þróttarinn Miguel Ramos með 14 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert