GSÍ hefur sent tilmæli til golfklúbba á höfuðborgarsvæðinu um að golfleik verði hætt til 19. október. Í tilkynningu er sagt að þetta sé gert að tilmælum sóttvarnarlæknis.
„Viðbragðshópur Golfsambands Íslands beinir því hér mér til allra golfklúbba á höfuðborgarsvæðinu að loka golfvöllum sínum fram til 19. október, eða þar til ný fyrirmæli berast frá yfirvöldum. Nánar tiltekið er um að ræða golfvelli í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Álftanesi, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ, Mosfellsdal og Kjalarnesi,“ segir í tilkynningu frá Golfsambandinu.
„Þá beinir GSÍ þeim tilmælum til kylfinga á höfuðborgarsvæðinu að virða framangreindar takmarkanir og leita þannig ekki til golfvalla utan höfuðborgarsvæðisins, enda hafa yfirvöld beint því til höfuðborgarbúa að vera ekki á ferðinni til eða frá höfuðborgarsvæðinu meira en nauðsyn krefur,“ segir á vefsíðu GSÍ.