Enn hreinsar Hlynur upp Íslandsmetin

Hlynur Andrésson.
Hlynur Andrésson. Ljósmynd/Bjorn Parée

Hlynur Andrésson langhlaupari frá Vestmannaeyjum er orðinn handhafi sex Íslandsmeta utanhúss eftir að hann sló metið í hálfu maraþoni á heimsmeistaramótinu í þeirri grein, 21 km hlaupi, í Póllandi á laugardaginn.

Hlynur hefur þar með á þremur árum hreinsað upp Íslandsmetin á öllum vegalengdum frá 3.000 metrum og upp í 21 kílómetra.

Hann hljóp á einni klukkustund, 02,47 mínútum á laugardaginn, varð í 52. sæti af 122 keppendum og bætti fimm ára gamalt met Kára Steins Karlssonar um rúmar tvær mínútur.

Þetta er þriðja metið sem Hlynur tekur af Kára Steini. Fyrst voru það 5.000 metrarnir árið 2017, þá 10.000 metrarnir árið 2018 og nú hálfa maraþonið.

Á sama tíma hefur Hlynur tekið tvö met af Jóni Diðrikssyni sem sá síðarnefndi setti árið 1983. Hlynur sló met Jóns í 10 km götuhlaupi á síðasta ári og í 3.000 metra hlaupi í ágústbyrjun á þessu ári.

Loks á Hlynur Íslandsmetið í 3.000 metra hindrunarhlaupi en hann sló þar fimmtán ára gamalt met Sveins Margeirssonar árið 2018.

Til viðbótar þessu er Hlynur handhafi þriggja Íslandsmeta innanhúss, í 1.500, 3.000 og 5.000 metra hlaupum þar sem hann deilir reyndar tveimur með Jóni og Kára vegna mismunandi aðstæðna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert