Gamla ljósmyndin: Skeggið

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um.

Tugþrautarkappinn úr Gnúpverjahreppi, Jón Arnar Magnússon, virðist þungt hugsi á þessari mynd sem tekin var af honum á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004. 

Jón var með myndarlegan skeggvöxt þegar hann var .þekktur keppnismaður í tugþraut og lék sér oft með skemmtilegar útgáfur af skeggi. Ekki síst þegar hann keppti fyrir Íslands hönd á stórmótum. Vakti það nokkra athygli bæði innanlands sem utan. Til dæmis þegar hann tók upp á því að mála skeggið í fánalitunum. 

Meðfylgjandi mynd sýnir ágætlega skeggið og bartana sem Jón skartaði á leikunum í Aþenu en Jón keppti þá í tugþraut á sínum þriðju og síðustu Ólympíuleikum. Myndina tók Kjartan Þorbjörnsson, Golli, sem myndaði leikana fyrir Morgunblaðið og mbl.is. 

Jón Arnar Magnússon er einn mesti íþróttakappi sem fram hefur komið hér á landi. Nægir þar að skoða árangur hans í stökum greinum í frjálsum til að komast að þeirri niðurstöðu. Eða Íslandsmet hans í tugþrautinni sem er 8.573 stig en það setti hann í Götzis í maí árið 1998. Metið á Jón enn en einnig á hann Íslandsmetin í 100 metra grindahlaupi og langstökki þótt hann hafi lagt áherslu á tugþrautina.

Jón Arnar hafnaði í 4. sæti í tugþraut á EM í Búdapest árið 1998 með 8.552 stig og í 12. sæti á Ólympíuleikunum í Atlanta árið 1996 með 8.274 stig sem þá var Íslandsmet. 

Í sjöþraut komst Jón Arnar þrívegis á verðlaunapall á stórmótum. Á EM innanhúss 1996, HM innanhúss 1997 og HM innanhúss 2001. 

Jón Arnar hlaut sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna tvö ár í röð, 1995 og 1996. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert