Sundsamband Íslands hefur valið Snæfríði Sól Jórunnardóttur og Anton Svein McKee sundfólk ársins 2020.
Í tilkynningu frá SSÍ segir að valið sé í samræmi við samþykktir sambandsins um val á sundfólki ársins en það er m.a. byggt á stigafjölda í bestu grein viðkomandi keppanda, árangri á Íslandsmótum á báðum brautarlengdum og fleiri lykilþáttum sem skilgreindir hafa verið.
Um Snæfríði og Anton segir m.a. í tilkynningunni:
Snæfríður Sól er 20 ára og syndir fyrir Álaborg í Danmörku. Hún náði bestum árangri íslenskra kvenna í sundi á árinu 2020, samkvæmt útgefnum viðmiðum SSÍ.
Snæfríður synti á sínum yngri árum í Hveragerði fyrir sundfélagið Hamar en flutti til Árósa þegar hún var 11 ára. Hún keppti á Ólympíuleikum ungmenna sem haldnir voru í Buenos Aires 2018 og tók þátt í EM25 2019 og á HM50 2019.
Snæfríður Sól synti fyrir Arhus þar til í haust en þá fylgdi hún þjálfara sínum Birni Selvejer til Alaborgar þegar hann tók við starfi Eyleifs Jóhannessonar sem nú starfar sem yfirmaður landsliðsmála hjá Sundsambandi Íslands. Þrátt fyrir miklar sóttvarnarðgerðir hefur Snæfríður stundað æfingar í Danmörku og árangurinn hefur ekki látið á sér standa.
Danska meistaramótið fór fram í 25 laug nú í vikunni og þar tvíbætti Snæfríður Sól Íslandsmetið sitt í 200m skriðsundi um tvær sekúndur. Snæfríður er góð fyrirmynd jafnt sem sundkona og utan laugar. Snæfríður er ung að árum og á bjarta framtíð fyrir sér. Næstu mánuði mun hún einbeita sér að því að ná lágmörkum fyrir Ólympíuleikana í Tokyo 2021.
Anton Sveinn McKee er 27 ára sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar er valinn sundmaður ársins þriðja árið í röð. Anton býr í Vestur-Virginíuríki þar sem hann stundar æfingar en eins og flestir vita hefur hann tryggt sér rétt til að keppa á Ólympíuleikunum í Tókýó á næsta ári. Hann stefnir að hámarksárangri í Tokyo 2021.
Anton Sveinn náði ótrúlega góðum árangri á árinu 2020. Í nóvember tók Anton í fyrsta skipti þátt á ISL mótaröðinni með liði Toronto Titans. Mótaröðin fór fram í Búdapest en ISL stendur fyrir „The International Swimming League“ en hún var stofnuð árið 2019 og er fyrsta alþjóðlega atvinnumannadeildin í sundi. Þar keppa bestu sundmenn heims. Deildin er liðakeppni og er skipuð 10 liðum sem hvert og eitt er skipað 32 sundmönnum og sendir hvert lið tvo sundmenn í hverja grein
Anton Sveinn stóð sig gríðarlega vel á mótunum í Búdapest og tvíbætti Norðurlanda – og Íslandsmet í 200m bringusundi og bætti einnig Norðurlandmet og Íslandsmet í 100m bringusundi. Anton Sveinn er sem stendur í 6. sæti á heimslistanum í 100m bringusundi og í 3. sæti í 200m bringusundi í 25m laug sem er gríðarlega góður árangur. Anton Sveinn er fyrirmynd jafnt sem sundmaður og utan laugar. Hann hefur sýnt mikla elju en leikarnir í Tókýó verða þeir þriðju sem hann tekur þátt í. Anton hefur verið óspar á að miðla reynslu sinni og þekkingu til ungs og upprennandi sundfólks.