Seinni dagur Norðurlandamóts unglinga í ólympískum lyftingum fór fram í dag og voru sett 32 aldursflokkamet og ellefu Íslendingar unnu til verðlauna. Engir áhorfendur voru á mótinu en því var streymt frá miðlum norska landssambandsins. Dómarar mótsins dæmdu lyfturnar í tölvum hvaðanæva af á Norðurlöndunum í gegnum streymið.
Bjarki Breiðfjörð -73 kg flokki, Brynjar Ari Magnússon -89 kg flokki, Eygló Fanndal Sturludóttir -76 kg flokki, Brynjar Logi Halldórsson -81 kg flokki og Símon Gestur Ragnarsson -96 kg flokki urðu öll Norðurlandameistarar í sínum flokki.
Úlfhildur Unnarsdóttir, Kristín Dóra Sigurðardóttir og Birta Líf Þórarinsdóttir enduðu í öðru sæti í sínum flokki og fengu silfurverðlaun og þau Bergrós Björnsdóttir, Birgir Hilmarsson og Kári Norbu Halldórsson enduðu í þriðja sæti í sínum flokki.
Íslandsmetin sem féllu á mótinu voru sem hér segir:
Erika Eik Antonsdóttir var fyrsti keppandinn á svið. Hún keppti í 59 kg flokki 17 ára og yngri. Erika setti aldursflokkamet í 4 lyftum af þeim 6 sem hún tók sem endaði með 66 kg í snörun, 76 kg í jafnhendingu og 142 kg í samanlögðu sem er met í aldursflokknum.
Hin 13 ára gamla Bergrós Björnsdóttir var yngsti keppandi mótsins. Keppti hún í -64 kg flokki 17 ára og yngri. Bergrós setti aldursflokkamet í 4 lyftum af 6 sem hún tók sem endaði með 65 kg í snörun, 75 kg í jafnhendingu og 140 í samanlögðu sem er met í U17 og U15.
Úlfhildur Unnarsdóttir keppti í -71 kg flokki 17 ára og yngri og setti aldursflokkamet í 5 lyftum af þeim 6 sem hún tók sem endaði í 77 kg í snörun, 90 kg í jafnhendingu og 167 kg í samanlögðu sem er met í U15 ára flokki.
Bjarki Breiðfjörð Björnsson keppti í -73 kg flokki 17 ára og yngri og setti aldursflokkamet í 4 lyftum af þeim 6 sem hann tók sem endaði í 95 kg í snörun, 106 kg í jafnhendingu og 201 kg í samanlögðu sem er met í U17 ára flokki.
Brynjar Ari Magnússon keppti í -89 kg flokki 17 ára og yngri og setti aldursflokkamet í 3 lyftum. Hann endaði með 118 kg í snörun og 130 kg í jafnhendingu sem er met í aldursflokknum.
Eygló Fanndal Sturludóttir keppti í -76 kg flokki 20 ára og yngri og setti 2 met með einni lyftu í U20 og U23 með 95 kg jafnhendingu og 169 kg í samanlögðu.