Ingvar Ómarsson og Ágústa Edda Björnsdóttir eru hjólreiðamaður og hjólreiðakona ársins 2020 en aðildarfélög Hjólreiðasambands Íslands standa að kjörinu.
Umfjöllun Hjólreiðasambandsins um Ingvar:
Ingvar Ómarsson hefur verið kosinn hjólreiðamaður ársins 2020 af aðildarfélögum Hjólreiðasambands Íslands. Þetta er sjöunda árið í röð sem Ingvar er valinn hjólreiðamaður ársins. Þrátt fyrir undarlegt keppnisár tók Ingvar þátt í nokkrum keppnum erlendis, þ.á m. á fjallahjólamóti í Grikklandi þar sem hann náði 15. sæti og er það hans besti árangur á heimsbikarmóti til þessa. Auk þess varð Ingvar Íslandsmeistari í tímaþraut, ólympískum fjallahjólreiðum og maraþonfjallahjólreiðum. Hann varð svo einnig stigamótsmeistari í götuhjólreiðum og tímaþraut. Ingvar keppti fyrir hönd Íslands á HM í tímaþraut sem fram fór á Ítalíu í september. Ingvar hefur verið einn fremsti hjólreiðamaður Íslands síðustu átta ár og er enn að bæta sig. Hann er mjög metnaðarfullur og ávallt tilbúinn í nýjar áskoranir.
Umfjöllun Hjólreiðasambandsins um Ágústu:
Ágústa Edda Björnsdóttir hefur verið kosin hjólreiðakona ársins 2020 af aðildarfélögum Hjólreiðasambands Íslands. Þetta er fjórða árið í röð sem Ágústa Edda er valin hjólreiðakona ársins. Ágústa tók þátt í HM í götuhjólreiðum og tímatöku fyrir Íslands hönd sem haldið var á Ítalíu í september. Ágústa Edda varð Íslands- og stigamótsmeistari í götuhjólreiðum og tímaþraut. Ágústa Edda er frábær fyrirmynd bæði í daglegu lífi sem og á æfingum þar sem hún er jákvæð, hvetjandi, opin og skemmtileg. Hún sýnir vel hvernig markmiðasetning skilar árangri sé skipulaginu fylgt vel eftir.