Gamla ljósmyndin: Einvígi á Melavellinum

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um.

Í lok júlí árið 1951 fór fram íþróttaviðburður í Reykjavík sem mikla athygli vakti hérlendis og um leið í Frakklandi. Þáverandi Evrópumeistari í tugþraut, Ignace Heinrich frá Frakklandi, keppti þá í tugþraut á Melavellinum. Hefur keppnin iðulega verið kölluð tugþrautareinvígið því Örn Clausen var einnig á meðal keppenda. Ári áður var EM haldið í Brussel í Belgíu og þar var hörkukeppni á milli Heinrich og Arnar. Heinrich varð Evrópumeistari og Arnar fékk silfurverðlaun eftir að hafa unnið fjórar greinar af tíu. Heinrich hafði auk þess hlotið silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í London árið 1948.

Talið er að upp undir tíu þúsund manns hafi lagt leið sína á Melavöllinn til að fylgjast með köppunum og urðu ekki fyrir vonbrigðum því Heinrich og Örn voru í sínu besta formi. Aftur sigraði Heinrich naumlega og sótti franskt met í síðasta sinn á ferlinum, 7.476 stig.  Örn setti Norðurlandamet 7.453 stig og þessi árangur þeirra var sá besti og næstbesti í heiminum árið 1951. Tómas Lárusson keppti einnig og fékk 5.505 stig í þrautinni sem var fimmti besti árangur Íslendings fram að því.

Myndina tók hinn þekkti ljósmyndari Ólafur K. Magnússon þegar keppni stóð sem hæst á Melavellinum 29. júlí 1951. Um er að ræða lokagreinina, 1.500 metra hlaup, og er Heinrich fremstur, þá Örn og lok Tómas. Vinstra megin má svo sjá hluta áhorfendaskarans þar sem fólk stendur þétt. 

Keppnin á Melavellinum var sú síðasta hjá Erni á ferlinum en hann hætti keppni  árið eftir aðeins 23 ára gamall en hann keppti fyrir ÍR. Hugðist hann keppa á Ólympíuleikunum árið 1952 en meiddist í aðdraganda keppninnar. 

Örn Clausen keppti einu sinni á Ólympíuleikum og hafnaði í 12. sæti á leikunum í London árið 1948.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert