Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir, skautari hjá Skautafélagi Akureyrar, setti í lok nóvember síðastliðins Íslandsmet á öllum sviðum í unglingaflokki kvenna þegar hún vann á móti sem var haldið í Champéry í Sviss, þar sem Ísold er búsett.
Á mótinu setti hún stigamet í stuttu prógrammi með 56,81 stig, stigamet í frjálsu prógrammi með 94,38 stig og þar af leiðandi heildarstigamet með 151,19 stig. Fyrri metin átti Aldís Kara Bergsdóttir frá 2019 og 2020.
Auk þessara stigameta lenti hún, fyrst íslenskra skautara, bæði þreföldu „Lutzi“ (3Lz) og var með fyrstu samsetninguna með tveimur þreföldum stökkum, þrefalt „Flip“ + þrefalt „Toeloop“ (3F+3T). Fékk hún einnig mjög góðar einkunnir fyrir „components.“
Ísold Fönn, sem er 14 ára gömul, hefur um árabil búið og skautað erlendis. Hún hefur síðasta árið búið í Champéry og æft þar undir leiðsögn listskautarans Stéphane Lambiel, sem er tvöfaldur heimsmeistari og silfurverðlaunahafi á Ólympíuleikum í greininni.