Íþróttafólkið sem Vésteinn Hafsteinsson þjálfar erlendis heldur áfram að gera það gott og nú féll Norðurlandamet í kúluvarpi í Þýskalandi.
Fanny Roos setti Norðurlandamet í kúluvarpi innanhúss á móti Karlsruhe í Þýskalandi og kastaði 18,64 metra. Samkvæmt fréttum í sænsku blöðunum átti hún sjálf fyrra metið og bætti það um 3 sentimetra. Eldra metið setti hún í Norrköping og var frá árinu 2019.
Roos er 26 ára gömul og kemur frá Svíþjóð. Roos á einnig Norðurlandametið í greininni utanhúss sem er 19,06 metrar og var sett í Minsk árið 2019. Eins og fyrr segir er þjálfari hennar Selfyssingurinn Vésteinn Hafsteinsson.