Sofia Goggia, ólympíumeistari í bruni, verður ekki á meðal keppenda þegar heimsmeistaramótið í alpagreinum fer fram síðar í mánuðinum.
HM verður haldið á Ítalíu og hin ítalska Goggia missir því af tækifæri til að keppa á stórmóti á heimaslóðum.
Goggia er 28 ára gömul og ljóst að hún hefði verið langsigurstranglegust í brunkeppninni því hún hefur unnið fjögur mót í röð í bruni í heimsbikarnum. Nú opnast möguleiki fyrir aðrar til að næla í heimsmeistaratitilinn.
Goggia er á sjúkralistanum en hún varð nýlega fyrir hnémeiðslum. Eftir að hafa farið í myndatöku vegna meiðslanna gaf ítalska skíðasambandið út að tímabilinu væri lokið hjá Goggia.