Nítján ára gamall leikmaður í NHL-deildinni í íshokkí nýtti tækifærið vel í sínum fyrsta leik í deildinni aðfaranótt miðvikudags og skoraði í frumrauninni.
Leikmaðurinn heitir Arthur Kaliyev og er frá Úsbekistan. Leikur hann með Los Angeles Kings en liðið mætti Anaheim Ducks og tapaði 3:1 og skoraði Kaliyev því eina mark liðsins.
Íshokkíáhuginn er töluverður í Úsbekistan eins og í langflestum ríkjum gömlu Sovétríkjanna. En Kaliyev fékk hins vegar ekki uppeldi sitt í íþróttinni þar. Hann fæddist í Úsbekistan en fjölskyldan fluttist til Bandaríkjanna þegar hann var tveggja ára gamall.
Var hann valinn þrítugasti og þriðji í nýliðavalinu árið 2019 af LA Kings. Kaliyev er mikill markaskorari en lélegur varnarleikur mun hafa minnkað möguleika hans á því að vera valinn fyrr í nýliðavalinu.
Úsbekistan er ekki neitt smáríki því þar búa um 34 milljónir manna. Ekki hafa þó margar íþróttastjörnur komið frá Úsbekistan en íþróttafólk þaðan hefur helst látið að sér kveða í greinum eins og fimleikum, hjólreiðum, glímu og hnefaleikum.