Ofurskálin: Sá besti gegn Íslandsvininum

Tom Brady og Patrick Mahomes keppa í kvöld um Ofurskálina.
Tom Brady og Patrick Mahomes keppa í kvöld um Ofurskálina. Ljósmynd/Samsett

Skærasta vonarstjarnan í amerískum fótbolta mun mæta einum þeim besta fyrr og síðar í kvöld þegar Kansas City Chiefs og Tampa Bay Buccaneers berjast um 55. NFL-titilinn. Leikurinn hefst klukkan 23:30 að íslenskum tíma.

Tom Brady, leikstjórnandi Tampa Bay, er af mörgum talinn sá besti í sögunni, en hann hefur unnið meistaratitilinn sex sinnum. Hann freistar þess í kvöld að vinna þann stóra í sjöunda sinn, þá í fyrsta sinn í sögunni sem lið í NFL-deild ameríska fótboltans gerir það á heimavelli.

Patrick Mahomes er vonarstjarnan. Hann er leikstjórnandi Kansas City Chiefs sem reyna nú að vinna sinn annan meistaratitil í röð, en þeir höfðu betur gegn San Francisco 49ers í fyrra. Mahomes var þá valinn besti maður leiksins.

Mahomes ætti að vera Íslendingum kunnur en hann bjó í Mosfellsbæ í nokkra mánuði árið 2017 á meðan kærasta hans, Brittany Matthews, spilaði knattspyrnu með Aftureldingu/Fram í 2. deild.

Áhorfendur eru nú þegar farnir að setja sig í stellingar …
Áhorfendur eru nú þegar farnir að setja sig í stellingar vestra, gildir þá einu hvort þeir séu í úlfalíki eða í heðfbundari klæðnaði. AFP

Meira en sögulegt

Á vef NFL-deildarinnar segir að allir úrslitaleikir séu sögulegir, en leikurinn í kvöld sé eitthvað meira en það. Í kvöld mun það ráðast hvort Patrick Mahomes geti leitt lið Kansas til sigurs annað árið í röð, í fyrsta sinn síðan New England Patriots gerðu það árin 2003-2004.

Í upphafi tímabils voru Kansas City Chiefs taldir sigurstranglegasta liðið í ár, þrátt fyrir að hafa tapað fyrsta leik sínum fyrir Las Vegas Raiders. Því spyrja sig margir hvort Mahomes takist að stýra Kansas til sigurs og leggja þannig grundvöll að stórum kafla í goðsögum Ofurskálarinnar, eða verður hann að lúta í lægra haldi fyrir Tom Brady, einum þeim besta?

Brady hefur nú í mörg ár ullað framan í þá sem segja hann vera orðinn of gamlan fyrir NFL-deildina. Hann er 43 ára gamall og hefur á sínum ferli leikið 10 sinnum um titilinn, sem er met. Það er erfitt að tala um Ofurskálina án þess að nefna Brady á nafn, sem sagðist ekki vilja skipta á neinu fyrir tvo áratugi fyrir New England Patriots, enda varð hann meistari sex sinnum með liðinu.

Tom Brady.
Tom Brady. AFP

Veiran leikur sitt hlutverk

Leikurinn í kvöld verður leikinn á heimavelli Tampa Bay Buccaneers, eins og fyrr segir, og setur heimsfaraldur kórónuveiru svip sinn á leikinn eins og svo margt annað. Í ár verða áhorfendur 22.500 talsins, þar af 7.500 bólusettir heilbrigðisstarfsmenn, og auk þess að sjá úrslitaleikinn sögulega munu þeir verða þess heiðurs aðnjótandi að sjá The Weeknd flytja hið fræga hálfleiks-atriði.  

Aðeins verður 22.500 manns leyft að vera viðstaddir þennan sögulega …
Aðeins verður 22.500 manns leyft að vera viðstaddir þennan sögulega úrslitaleik. Völlurinn verður þó þéttsetinn, þökk sé þessum áhorfendum sem gerðir eru úr pappaspjöldum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert